top of page

Um okkur

Farsæld er húmanískt lífsskoðunarfélag byggt á lífsskoðunum á grunni raunhyggju um siðferði og þekkingu. Sjá nánar um það og nafn félagsins hér neðar. Félagið var stofnað 23. mars 2025, í Safnahúsi, Reykjavík. Félagslög þess byggja á blöndu af rökræðulýðræði og málefnalegu atkvæðalýðræði. 

Farsæld er stofnað til að vera vettvangur fyrir umræðu og lærdóm um þau gildi sem skipta fjölskyldur í samfélaginu verulegu máli og hafa áhrif á líf okkar. Um þau mótum við lífsskoðanir og reynum að lifa í samræmi við þær. Við teljum að góðar lífsskoðanir skipti verulegu máli fyrir gott líf. Við viljum sameinast um þær og efla manngerð (karakter) okkar til að sigla farsællega í gegnum þann ólgusjó sem lífið getur einkennst af. Við viljum hjálpast að við að blómstra í lífinu og ná markmiðum okkar. Til þess þykir okkur mikilvægt að huga að hugsunum okkar og eiga um þær samræður, en í því felst heimspekilegur lífsmáti. Sjá nánar á síðunni Grundvöllur.

Við bjóðum upp á athafnastjórnun í samræmi við þessa lífsskoðun. Sjá síðu um athafnaþjónustuna.

 

Stjórn Farsældar

Aðalstjórn

  • Svanur Sigurbjörnsson, formaður

  • Sævar Ari Finnbogason, varaformaður

  • Unnur Hjaltadóttir, fulltrúi

  • Júlía Linda Ómarsdóttir, gjaldkeri

  • Dögg Árnadóttir, meðstjórnandi

  Varamenn

  • Helga Jóhanna Úlfarsdóttir

  • Jóhann Björnsson

Stuttlega um hugmyndagrunninn; raunhyggjuna - grunn húmanismans

Raunhyggjan er heimspekileg og því þarf að færa traust rök fyrir þeim skoðunum sem eiga að rúmast innan hennar. Traust rök samkvæmt raunhyggjunni vísa til sannanlegs veruleika þess þekkingarlegs eða siðferðilegs atriðis sem færa á rök fyrir hverju sinni. Sem dæmi: sönnun um tilvist örvera með notkun smásjár eða rök um siðferðilegt gildi lífs fólks út frá endanlegu verðmæti þess fyrir hverja manneskju - innra virði lífsins.

 

Í raunhyggju er ímynduðum veruleika hafnað (nema sem líkingarmáli eða listformi) og því er trúleysi hluti af þessari lífsskoðun. Siðferðilegur áttaviti okkar vísar veginn að verndun siðferðisgilda (eins og heilsu, fjölskyldu, trausts, friðar, frelsi og mannhelgi) en ekki eftir „ritningu“ eða „boðum æðri máttarvalda".

 

Siðferði og siðfræðikenningar innan raunhyggju eru fjölmargar, til dæmis afleiðingahyggja, skylduhyggja, (trúlaus) tilvistarhyggja, réttindakenningar, réttlætiskenningar og dygðasiðfræði. Þær kenningar sem rúmast þarna inni eiga það sameiginlegt að vera sammannlegar og geta því fallið undir regnhlífarhugtakið húmanismi. Sammannlegt siðferði vísar til gilda sem engar manneskjur vilja vera án, eins og frelsi, vináttu- eða ástartengsl, réttlæti, vera ekki refsað að ósekju, búa við frið og svo framvegis. Húmanisminn fellur þess vegna að innihaldi alþjóðlegra mannréttinda og hafnar afstæði um siðferði, en það gengur út frá sérhagsmunum eða sjálfdæmi um það sem hentar viðkomandi óháð afleiðingum fyrir aðra.  

Nafn félagsins er dregið út frá hugtaki siðfræðikenningar sem kallast heillahyggja eða farsældarhyggja. Kenningin á upptök sín í dygðasiðfræði Aristótelesar og fellur einnig undir svokallaða markhyggju. Samkvæmt henni skyldi hver manneskja hafa það að markmiði að efla siðferðilega dómgreind sína (siðvitið) og siðferðilega ábyrga afstöðu (eins og góðvilja, kjark, réttsýni o.s.frv.) í gegnum lífið. Manneskjan skyldi stefna að uppfyllingu góðra markmiða og skila því í þágu allra, ekki bara sjálfs síns. Þroskun og fágun siðferðis manneskjunnar er markmið hennar út lífið og með því næst farsældin (eudaimonia á Forn-grísku), sem er ákveðin gerð hamingju. Segja má að markmiðið sé að blómstra í lífinu og bæta samfélagið í leiðinni, enda erfitt að blómstra við slæm skilyrði. Þessi blómstrun til farsældar (flourishing) er því áberandi í táknum félagsins.

 

Þú, lesandi góður, getur gerst félagi í Farsæld, deilir þú þessum lífsskoðunum með félaginu og vilt með aðild þinni styrkja markmið þess og starfsemi. Sjá á skráningarsíðu.  

Nánari lýsing á skilgreiningu félagins, tilgangi og markmiðum er á síðunni Grundvöllur hugmynda Farsældar

bottom of page