

Um trúleysi
Trúleysi (atheism) er það að trúa ekki á tilvist þeirra fyrirbæra sem trúað fólk kallar guð, guði eða æðri verur af ýmsum toga. Í huga hins trúlausa er veran „guð” einungis „hugmyndin guð” en ekki raunveruleg vera því það hefur ekki tekist að sanna með skilyrðum vísindanna að slík vera sé til. (Hið sama á við um álfa, tröll, drauga, einhyrnda hesta o.s.frv.). Til þess að sanna tilvistina þurfa til dæmis fleiri en einn einstaklingur að sjá veruna á sama tíma eða geta mælt tilvist hennar með mælitækjum, sé hún handan skilningarvitanna. Þetta á að vera hægt að endurtaka á öðrum tíma, öðrum stað og af öðru fólki, óháð því hvort það „trúi” eða ekki. Staðhæfingin um að það sé til „guðsvera” er í eðli sínu ótrúleg því það hafa verið svo margar ólíkar lýsingar á henni í gegnum mannkynssöguna og enginn trúaður hefur getað sýnt hinum ótrúaða bein og ótvíræð („hörð”) sönnunargögn um tilvist hennar. Guðshugmyndir eru sveipaðar dulúð og þær eru því jafnan sagðar „yfirskilvitlegar” þ.e. óáþreifanlegar með skilningarvitunum. Þá hafa guðshugmyndir komið og farið í gegnum árþúsundir í sögu manna og því ólíklegt að akkúrat „guð” í dag sé eitthvað líklegri sem raunveruleiki en hinir fornu guðir (í ótal myndum) sem enginn trúir á lengur. Vegna þess að manneskjur hafa auðugt ímyndunarafl og geta búið sér til allskyns hugarheima og ímyndaðar verur, liggur sönnunarbyrðin á þeim sem heldur „guðshugmyndinni” fram en ekki þeim sem á hlustar. Gildir einu að veran „guð” hafi verið sögð vitnuð fyrir mörgum öldum eða árþúsundum, því sé hún enn til, ætti hún að vera sannanleg enn í dag. Þetta þýðir að hinn trúaði getur ekki haldið því fram með réttu gagnvart hinum trúlausa að „fyrst þú getur ekki afsannað hugmynd mína um guð, þá er guð til”. Þetta er kallað að snúa sönnunarbyrðinni við eða öfug sönnunarbyrði. Til að „sanna eitthvað svona ótrúlegt þarf ótrúlega góð sönnunargögn” rökstuddi vísindafræðarinn Carl Sagan. Slík sönnunargögn hafa ekki komið fram og því er mikill fjöldi fólks með gagnrýna vísindalega hugsun trúlaust.
Óvissuhyggja (agnosticism) er sú skoðun að trúa ekki á guðshugmyndir en telja þær heldur ekki afsannaðar. Óvissusinnar („agnostikar”) meðal trúlausra virðast þannig ekki hafa þekkt rökin um öfuga sönnunarbyrði eða ekki sannfærst af þeim. Óvissuhyggja var algengari á 20. öldinni en núna því eftir að menningarleg alda umræðu og fræðslu um trúleysi fór yfir hinn vestræna heim upp úr síðustu aldamótum, færðust margir óvissusinnar yfir í vissu trúleysis. Stundum færast trúaðir sem missa trú sína yfir í óvissuhyggju um tíma áður en þeir ná vissu í trúleysi sínu. Óvissuhyggju er hægt að rugla saman við efahyggju (scepticism) en hin síðarnefnda snýst um efa gagnvart því að hægt sé að sanna hluti (sem þekkingu) yfir höfuð og á sér ýmis tilbrigði, sem verður ekki fjallað um hér.
Trúleysi til skaðleysis. Trúleysi er hluti af húmanisma og hugsun raunhyggjufólks um tilveruna. Trúleysi, rétt eins og vantrú á allskyns ímyndaðar verur, er hluti af þeim tilgangi þess að vernda mynd sína af raunveruleikanum og efla þannig raunsæi sitt og röklegan grunn forsenda um heiminn. Til dæmis er það verndandi að byggja ekki lækningar á „boðun guðanna” eða siðferði á „skipun guðsins” því það er ekkert sannanlegt hald í þekkingarlegum réttleika eða siðferðilegu réttmæti fullyrðinga sem byggja á skálduðum orðum ímyndaðra vera. Milljónir manna um allan heim í gegnum mannkynssöguna hafa beðið mikinn skaða af því að byggja líf sitt á slíkri trú. Stríð hafa verið háð til að etja einum guði gegn öðrum (og yfirráðum þeirra) og fólk tekið af lífi sökum „trúvillu” fyrir það eitt að sýna smá sjálfstæði í hugsun. Það brenglar einnig t.d. gildismat að taka “guð” fram yfir líf sitt. Trúleysi er því skaðaminnkandi hugsun en hefur að öðru leyti lítið eða ekkert með siðferði eða annað gildismat að gera. Það að vera laus undan trú tryggir ekki góða siðferðilega hugsun þó trúleysi minnki líkur á vissum skaðlegum ályktunum. Til þess þarf uppbyggilegt sammannlegt siðferði líkt og húmanisminn hefur tekið upp á arma sína.