top of page

Siðareglur

Fagmennska

Islenskun-ethics_ptrtportrait.jpg

Siðareglur Farsældar

húmanísks lífsskoðunarfélags

Siðareglur Farsældar, reglur um góða siðferðilega hegðun og starfshætti, eru ætlaðar kjörnum fulltrúum þess í stjórn eða ráðum og fagfólki á vegum þess á starfsvettvangi félagsins. Þær eru ætlaðar til viðmiðunar og leiðbeiningar til viðbótar við ákvæði í lögum félagsins. Félagsmenn í starfi fyrir eða í hlutverki á vegum félagsins skulu halda siðareglurnar í heiðri.

 

Fulltrúar Farsældar skulu

  1. Starfa eftir lífsskoðun og hugsjón félagsins - siðferðilegri raunhyggju húmanismans - félagsmönnum og samfélagi til góðs, þroska og farsældar.

  2. Hafa ávallt mannvirðingu í fyrirrúmi: sýna góðvilja, sanngirni og nærgætni til verndar gildunum velgjörð, mannhelgi, sjálfsákvörðun og réttlæti. Bera skal virðingu fyrir dýrmætum tengslum fólks og sjálfsvirðingu þess og orðstír.

  3. Sýna ekki af sér mismunun eða fara í manngreinarálit. Gæta ávallt málefnalegrar og óhlutdrægrar meðferðar mála og umræðna. Njóta starfsins og iðka kurteisi.

  4. Hafa ávallt dýrmæt samfélagsleg gildi í fyrirrúmi: vináttu, traust og frið. Gæta þess að gildi samstöðu eða gagnkvæmis þjóni ávallt siðferðilega réttmætum tilgangi.

  5. Sýna nærgætni og hjálpsemi gagnvart einstaklingum eða hópum í viðkvæmri stöðu, svo sem börnum, heilsuveilum, öldruðum, fólki í áfalli eða öðrum sem eru öðrum háðir um hjálp.

  6. Sýna heiðarleika og heilindi. Sýna þekkingarlega varkárni og gagnrýna hugsun.

  7. Efla eigin þroska og lærdóm. Þekkja eigin takmarkanir og sýna hógværð. Fylgja góðum viðmiðum gagnrýninnar hugsunar. Stuðla að því sama fyrir aðra t.d. í gegnum samtal, leiðbeiningu eða kennslu.

  8. Sýna af sér fagmennsku: siðvit, þekkingu og færni, við hæfi aðstæðna hverju sinni. Gæta skal þess að fara ekki yfir mörk þeirrar þjálfunar eða hlutverks sem fulltrúi er í hverju sinni.

  9. Miðla þekkingu og leiðbeina um farsæla siðferðilega afstöðu og gildi.

  10. Gæta þess að misnota ekki stöðu sína innan félagsins eða sérþekkingu í eigin þágu eða nákominna. kynbundin áreitni, einelti, kúgun eða hverskyns ofbeldi eru ekki liðin, né stofnun til kynferðilegs sambands við þjónustuþega/skjólstæðinga.

  11. Gæta trúnaðar gagnvart viðkvæmum eða persónulegum upplýsingum um fólk sem kunna að koma fram í starfi á vegum félagsins.[1]

  12. Gæta að velferð þjáningarleysis og frelsi dýra ásamt virðingu og góðri umgengni um náttúruna. Stuðla að heilbrigði lífheimsins og lífsskilyrða hans.

  13. Leitast við að skila uppbyggingu í starfi félagsins, vera góðar fyrirmyndir og starfa eftir góðum dygðum/gildum og hvetjandi jákvæðri afstöðu - til farsældar.

Fara skal að lögum félagsins, þessum siðareglum og öðrum grunnsamþykktum þess og fylgja landslögum sem lúta að starfsvettvangi félagsins. Tilkynna skal vitnuð brot á framangreindu til stjórnar félagsins.

 

Samþykktar af stofnfélögum á stofnfundi Farsældar þann 23. mars 2025 í Safnahúsi, Reykjavík.

 

[1]  (Undant. þó vegna atvika sem gætu fallið undir ákv. IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002.)

bottom of page