top of page

Um húmanisma

og þróun húmanískra félaga

Húmanismi (manngildisstefna) er samheiti yfir þá heimspeki, sýn á heiminn eða lífsskoðun sem er byggð á náttúruhyggju (eða raunhyggju), þ.e. þeirri sannfæringu að alheimurinn eða náttúran sé allt það sem fyrirfinnst eða er raunverulegt. Innsti kjarni húmanísks siðferðis er að treysta á gildismat út frá staðreyndum um lífið og þau siðferðilegu verðimæti sem í því og samfélagi okkar finnast. Í húmanisma er þannig leitað heimspekilega rökstuddra leiða til að útskýra okkur sjálf, siðferðið og samfélagið. Húmanisminn styðst við vísindalegar aðferðir til að skilja lífheiminn, umhverfi okkar á jörðinni og himingeiminn. Hann hafnar tilgátum sem byggja á órökstuddum hefðum, dulspeki eða opinberunum. Lífsskoðun húmanista byggist á ákveðinni siðferðilegri sannfæringu en ekki trú. Í mannréttindasáttmálum er því bæði talað um sannfæringarfrelsi (freedom of conviction) og trúfrelsi (freedom of religion).

Það má segja að húmanisminn hafi legið í eðli mannsins frá upphafi, eins og sjá má til dæmis í hæfileikum okkar við að lesa í náttúruna, búa til verkfæri og vernda hvert annað vegna sterkra siðferðilegra tengsla. Manneskjan hefur þurft ríkulegt raunsæi til að lifa af. Ólíkt mörgum hugmynda trúarbragða er uppruni góðs og ills, samkvæmt húmanisma, talinn liggja í togstreitu fólks um gæði lífsins og stjórnun geðsmuna sinna, en ekki út frá yfirskilvitlegum góðum eða illum öflum". Í húmanisma er manneskjan sögð frjáls og geta tekið ábyrgð á gjörðum sínum og framtíðarstefnu, frekar en að hún sé einskonar leiksoppur örlaga eða vilja guðanna. Í húmanisma eru engar afsakanir" líkt og Simone de Beauvoir komst að orði varðandi þá ábyrgð manneskja að taka líf sitt í eigin hendur frekar en að fela sig bak við hefðir eða ósanngjarnar leikreglur í fjölskyldulífinu, trúarbrögðum eða samfélaginu. Manneskjan ber ábyrgð og ber að axla hana sjálf. Markmið húmanista byggja á því að horfa til gilda velgjörðar, frelsis, réttlætis og þess sem styrkir tengsl vináttu og líf fjölskyldna. Samfélagsleg gildi eins og traust, friður, öryggi, lýðræði, jafnræði, menntun, málefnaleg umræða, málfrelsi og samstaða um uppbyggingu innviða sem allir njóta góðs af, sérstaklega þeir bágstöddu, eru samofin velferð einstaklinganna. Í húmanisma er horft til þessarar siðfágunar í samfélagsgerðinni og mikilvægi þroskabrautar einstaklinga með því að læra og tileinka sér vandaða gagnrýna hugsun en í henni fara saman ábyrg siðferðileg sýn, rökleg málefnaleg hugsun og þekkingarleg færni (heilbrigður efi). Í húmanisma er alþjóðahyggja (universalism, cosmopolitanism) áberandi en samkvæmt henni eru siðferðisverðmæti fólks hin sömu í grunninn óháð því hvar það býr á jörðinni. Um leið er menningarlegri yfirburðahyggju og sérréttindastefnum hafnað, enda ósamrýmanlegar jafnri virðingu fólks og velgjörð án mismununar. Húmanisminn horfir til þess að við getum lært mikið af hvort öðru um allan heim og notið jarðarinnar án þess að skapa óþarfa hindranir.  

Annar skilningur á hugtakinu. 1) Tengt trú. Svokallaður trúarlegur húmanismi er til og byggir hann á viðurkenningu á því að guð hins trúaða skipti ekki eingöngu máli heldur einnig hlutir sem varði manneskjuna án íhlutunar guðfræðilegra útskýringa á henni. Það eru til söfnuðir í BNA sem aðhyllast þetta. Svokallaðir únitarar þar eru nálægt þessu og eru fremur laustengdir við guðshugtakið.  Fyrr á öldum voru svokallaðir deistar fólk sem trúði á tilvist guðs en að hann skipti sér ekki lengur af fólki eftir að hann skapaði heiminn. Ábyrgð þess á siðferðinu væri því alfarið þeirra. Svokallaðir stofnfeður BNA voru margir deistar og er Thomas Jefferson þeirra þekktastur.  2) Tengt dulhyggju. Svokallaði silóistar (argentískur söfnuður sem varð alþjóðlegur) sögðust vera húmanistar en þeir eru skilgreindir sem ný-húmanistar (neo-humanism) og eru ekki nema að hluta raunhyggjufólk, því þeir eiga sér helgt fjall sem heitir Síló og stofnandi samdi ljóð um það sem inniheldur dulúðlega hluti. Sílóistar hafa starfað á Íslandi og voru um tíma með stjórnmálaflokk tengdan við hlutverk sitt. 3) Tengt persónulegri túlkun. Fólk hefur á ýmsan máta gegnum söguna notað hugtakið og oftast á það lítið sem ekkert skylt við siðrænan húmanisma raunhyggjunnar. Hinn vinsæli ísraelski fræðibókahöfundur Yuval Noah Harari, sem skrifaði metsölubókina Sapiens: A Brief History of Humankind (2011) skrifaði í framhaldinu bókina Homo Deus: A Brief History of Tomorrow, þar sem hann tók upp sína eigin orðanotkun á húmanisma. Þar sagði hann húmanisma vera grunn þeirra hugmyndastefna mannkyns sem setja manneskjuna eða einstaklinginn í miðjuna á öllu. Þannig átti auðhyggja (kapitalismi), nazismi, alræðiskommúnísmi, ágangur manneskja á náttúruna og annað sjálfmiðað hugarfar að vera það sem einkennir húmanisma. Hér virtist Harari vera fremur að lýsa svokallaðri mannmiðjuhyggju (anthropocentrism) en hinum almennt viðurkennda skilningi á húmanisma. Því miður breiðir þetta rit því út þveröfugum skilningi á húmanisma en verið hefur og getur valdið talsverðum ruglingi í umræðum um húmanisma. (Sjá nánar hér).  

Í sögulegu samhengi notkunar á orðinu sjálfu (og síðar samtaka í nafni húmanismans), þá var það fyrst notað í lok 16. aldar yfir evrópska kristna húmanista" sem hvöttu til rannsóknar og náms í bókmenntum og heimspeki á sjálfstæðan máta, án tengingar við trú - þ.e. „húmanískar greinar". Smám saman óx þetta sjálfstæði, sérstaklega upp úr Frönsku byltingunni 1794 og var þá runnin upp öld Upplýsingarinnar. Hugrakkir aðilar sem skrifuðu og lýstu yfir trúleysi fóru að birtast á 18. og 19. öld, líkt og skoski heimspekingurinn David Hume (1711 - 1776) sem hrakti tilvist kraftaverka í eftirminnilegu ritverki.

 

Mótun húmanisma í félögum

Í lok 19. aldar fóru að myndast félög fríþenkjara í Bretlandi og BNA og siðmenningarklúbbar (ethical culture clubs) sem aðskildu sig frá kirkjum og trú. Sum þessara félaga kenndu sig einnig við skynsemishyggju (rationalists).  Enski skynsemishyggjumaðurinn G.J. Holyoake kynnti árið 1851 til sögunnar orðið veraldlegur (secular) til lýsingar á húmanisma sem hafði hversdagslífið að viðfangsefni og hafnaði trú á æðri máttarvöld. 

 

Árið 1929 stofnaði bandaríski únítarapresturinn Charles Francis Potter (1885-1962) félag sem hét The First Humanist Society of New York (Hið fyrsta húmanistafélag New York borgar), en í ráðgjafanefnd þess voru ekki ómerkari menn en Julian Huxley (fyrsti stjórnandi UNESCO), John Dewey, Albert Einstein og Thomas Mann. Á þeim tíma var húmanismi kynntur sem ný trúarbrögð þótt hann fæli ekki í sér guðstrú. Potter var mikill baráttumaður fyrir kvenfrelsi, greiðari aðgangi að getnaðarvörnum, borgaralegum lögum um skilnað og afnámi dauðarefsingar. Hann og kona hans Clara Cook Potter gáfu út bók sem hét Humanism: A New Religion (Húmanismi: Ný trúarbrögð).

Stuttu síðar stóðu nokkrir merkir húmanistar að útgáfu rits árið 1933 sem hét The Humanist Manifesto (Stefnuyfirlýsing húmanistans). Bók Potter-hjónanna og stefnuyfirlýsingin urðu hornsteinar að kenningum nútíma húmanista þrátt fyrir að í báðum þessum verkum væri litið á húmanisma sem trúarbrögð (religion), en ekki endilega trú (faith),

 

Einn af mestu áhrifamönnum 20. aldarinnar var enski heimspekingurinn, stærðfræðingurinn og  húmanistinn Bertrand Russell (1872-1970) en ræða hans Af hverju ég er ekki kristinn" frá árinu 1927 vakti mikla athygli. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950 „í viðurkenningarskyni fyrir sín fjölbreyttu og þýðingarmiklu skrif í þágu baráttunnar fyrir hugsjónum mannúðarstefnu og hugsanafrelsis.”

 

Árið 1941 var hið bandaríska húmanistafélag, American Humanist Association, stofnað og má þar nefna fræga málsvara á borð við rithöfundana Isaac Asimov og Kurt Vonnegut, en sá síðarnefndi var heiðursforseti félagsins þar til hann lést árið 2007. Í Bandaríkjunum eru enn til hópar trúaðra húmanista (religious humanists) sem eru þó flestir guðlausir. Notkun á orðinu trúaðir (religious) hefur verið til vandræða þar sem skilgreining trúaðra húmanista á hugtakinu felur ekki í sér trú á guð. Þessi mótsagnakennda orðanotkun hefur haldist í Bandaríkjunum m.a. vegna þess að öll samtök sem geta flokkast sem trúuð (religious) fá skattafríðindi til jafns við venjubundin trúfélög.

 

Árið 1952 voru stofnuð í Amsterdam í Hollandi regnhlífarsamtök allra þessara samtaka undir heitinu International Humanist and Ethical Union (IHEU, Alþjóðleg samtök húmanista og siðmenningarfélaga). Á þessu fyrsta heimsþingi húmanista var samþykkt stefnuyfirlýsing um grundvallaratriði húmanisma og var hún kölluð Amsterdam-yfirlýsingin. Varð hún því hin opinbera stefnuyfirlýsing húmanista um heim allan. Á fimmtugasta afmælisári heimsþingsins árið 2002 komu húmanistar saman í Hollandi á ný og samþykktu uppfærsla á yfirlýsingunni (Amsterdam-yfirlýsingin 2002). Siðmennt, fyrstu félagasamtök húmanista á Íslandi, þýddu og tóku upp þá yfirlýsingu árið 2005. Nafni alþjóðasamtakanna var síðan breytt í Humanist International árið 2019 til einföldunar. Á 70 ára afmæli Amsterdam yfirlýsingarinnar var hún endurskoðuð og er nú kennd við árið 2022. Sú yfirlýsing er hluti af skoðanagrunni Farsældar. Þýðingu á henni má lesa hér.

Norðurlöndin. Í Noregi var húmanískt lífsskoðunarfélag stofnað árið 1956 og hóf fljótlega að halda sínar eigin athafnir - lang fyrst allra Norðurlandanna. Sumir Íslendingar vissu af trúfrelsisstefnum og skynsemishyggjufélögum í nágrannalöndum okkar, sérstaklega fólk sem tók upp sósíalískar skoðanir þar sem ægivaldi trúarbragða og auðvalds var hafnað. Halldór Kiljan Laxness var víðlesinn og hafði búið erlendis. Í bókinni Halldór Laxness – Úrvalsbók má finna ritgerð hans „Upphaf mannúðarstefnu", frá 1963, en þar rekur hann þann harmleik sem bókmenntaleg kúgun kristninnar olli á miðöldum í Evrópu. Þá hafi helst staðið uppúr skrif íslenskra sagnaritara á þeim tíma eins og verk Snorra Sturlusonar. Í Evrópu kom svo til bjargar húmanisminn (sem hann þýðir sem mannúðarstefna) og losaði fólk úr þeirri ánauð sem trúarbrögðin höfðu komið á. Orðrétt skrifaði Nóbelskáldið (bls. 719) þessu fleygu orð:


„Húmanismi bar í sér vakningu Evrópu, lauk upp fyrir nýrri hugsun, nýjum bókmenntastraumum, endurnýjungu allra lista, byggingarlistinni ekki hvað síst. Húmanisminn var í því falinn að allt mannfélagið gat farið að draga andann frjálslega. Allt í einu mega menn skrifa og lesa þær bækur sem þeir vilja án þess að einhver páfi rjúki til og hengi þá; þeir mega skapa list eins og hugur þeirra stendur til án þess að skjálfa á beinunum andspænis Heilögu Embætti, - þetta er veðurlag húmanismans.“

 

Upp úr síðustu aldamótum fór hugtakið lífsskoðunarfélag (life stance organization) að ryðja sér til rúms sem hugtak yfir félög sem sinna mikilvægum persónulegum skoðunum manna, t.d. um siðferði óháð því hvort þær byggja á trúarlegum eða veraldlegum grunni. Barátta húmanista hérlendis í Siðmennt (stofnað 1990), fyrir því að veraldleg (trúlaus) lífsskoðunarfélög fengju sömu réttindi gagnvart ríkinu og trúfélög, bar markverðan árangur árið 2013 þó ekki fengist jafnræði hvað ýmsar þær fjárveitingar sem þjóðkirkja hér fær. Alþingi staðfesti þá ný lög um trú- og lífsskoðunarfélög sem gáfu réttindi til lagalegra hjónavígslna og hlutdeild í sóknargjaldakerfinu. 

Universal-humanis-300x294.jpg
bottom of page