top of page

Stefna um frelsi til lífsskoðana og jafnræði

Farsæld, húmanískt lífsskoðunarfélag, styður sammannlegt (secular) samfélag þar sem lög og ríkisvald hygla hvorki né starfa undir merkjum einstakra lífskoðunar- eða trúarhópa. Ríkisvaldið eigi að styðja rétt allra borgara til að ræða, aðhyllast eða iðka ólíkar trúar- og lífsskoðanir svo lengi sem iðkun þeirra gengur ekki á sama frelsi annars fólks eða veldur því skaða.

Frelsi til trúar- og lífsskoðana sem mannréttindi

Hugsana-, skoðana- og trúfrelsi er á meðal grundvallandi mannréttinda sem tryggð eru í alþjóðlegum samningum, Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og í stjórnarskrám margra ríkja, þar á meðal í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.  Þessi réttindi gegna lykilhlutverki í lýðræðissamfélögum og skapa grunninn að sammannlegri skipan (secular, veraldlegri) þar sem allir hafa persónufrelsi, rétt til að ákvarða um líf sitt og rétt til að hafa áhrif á stjórnskipan þjóðar sinnar gegnum þátttöku í stjórnmálum eða nýtingu atkvæðisréttar. Lög eða réttindi slíkra lýðræðisríkja hafa ekki merkimiða einstakra hópa eða hreyfinga, heldur eru sammannleg og gilda fyrir alla óháð uppruna eða annarra sérkenna fólks.

 

Tjáningarfrelsi, guðlast og hatursorðræða

Farsæld telur refsiákvæði við tjáningu sem skilgreind er sem guðlast ekki eiga heima í lögum og að mikilvægt sé að leggja til baráttunnar gegn slíkum ákvæðum á alþjóðlegum vettvangi. Guðlast er það þegar aðili tjáir, gagnrýnir eða hæðist að trúarskoðun fólks eða hugsaðri veru eða hlut tilbeiðslu þeirra (guðshugmynd eða annað) án þess þó að beita ofbeldi, persónulegum niðrunum eða hótunum. Guðlastslög voru (og eru sumstaðar enn) notuð til að bæla niður alla gagnrýni á trú. Þau voru einnig notuð til að hefta frelsi fólks til að aðhafast nokkuð annað opinberlega en tilheyrir trúnni á helgidögum hennar, til dæmis almennt skemmtanahald á Páskasunnudegi. Þó aðili sem telur að trú (eða lífsskoðun) sín sé vanvirt og geti upplifað af því vanlíðan, er það ekki nægt tilefni til að telja það til saknæms athæfis á grunni laga, enda í ýmsum tilvikum persónulegt eða afstætt hver sú upplifun er. Særanleiki manneskja sem slíkur, eða skinhelgi, er ekki hlutlægur mælikvarði á hvort tjáning eða ummæli annarrar séu óréttmæt eða skaðleg. Það skyldi dæma út frá innihaldinu í tengslum við sammannlegan gildisgrunn laga eða alþjóðasamþykkta. Hið sama má segja um svokallaða „hatursorðræðu“ að hún er ekki slík nema að innihald hennar vegi að fólki á grunni persónueinkenna þeirra eða bakgrunni án málefnalegrar siðferðilegrar vísunar.[1] Málefnaleg gagnrýni á hverskyns skoðanir fólks eða trúarkerfi er ekki hatursorðræða.

Grín eða háð getur beinst að málflutningi og hugmyndkerfum fólks sem einskonar broddfluga eða ótilhlýðilega að einkennum persóna og verið hluti að hatursorðræðu, eftir atvikum. Það þarf því að dæma slíkt út frá innihaldi og samhengi við ætlaðan tilgang.

Þekkt er að guðlastslög hafa valdið ótilhlýðilegum málsóknum og óréttmætri hegningu fólks og þannig skert tjáningarfrelsi þess og valdið verulegum skaða. Ákvæði í stjórnarskrá vernda fólk frá mismunun eða óréttlæti og réttmæt lög gegn hatursorðræðu beinast gegn afmennskun, niðurlægingu eða æsingar til illrar framkomu, tapi réttinda eða ofbeldis gagnvart fólki eða hópum á grunni þátta sem varða ekki siðferði þess heldur séreinkenni. Farsæld telur að um slík ákvæði og lög þurfi að dæma út frá hlutlægt ákvörðuðum mælikvörðum siðferðis svo þau verði ekki í meðförum framkvæmdavalds að duldum guðlastslögum. Hópar sem þola ekki málefnalega gagnrýni eiga ekki að geta notað réttmæt lög til þöggunar á umræðu eða skerðingar á málfrelsi gagnrýnenda.   

 

Krafan um jafnrétti og jafnræði í meðferð - aðskilnaður ríkis og kirkju

Farsæld telur það grundvallaratriði að ekkert lífsskoðunarfélag, hvorki veraldlegt né trúarlegt, eigi að njóta forréttinda hjá íslenska ríkinu, í formi sérstaks fjárstuðnings, lagalegra réttinda, helgidaga, aðgengis að opinberum húsakynnum eða með öðrum hætti. Félagið telur mikilvægt að skapa jafnræði í meðhöndlun ríkis gagnvart öllum félögum og að hið sameiginlega í skipan samfélagslegra mála fyrir þjóðina sé ekki merkt neinu þeirra eða sé eingöngu einu eða fáum þeirra til framdráttar eða heiðurs. Endurskoða þurfi lög um frí- og helgidaga til að þeir þjóni sammannlegum hagsmunum þjóðarinnar en ekki sérhagsmunum einstakra trú- eða lífsskoðunarhópa.

 

Ákvæði í stjórnarskrá um jafna meðferð og óhlutdrægni ríkisins

Farsæld telur að ákvæði í stjórnarskrá eigi að tryggja jöfn lagaleg, félagsleg og fjárhaldsleg réttindi á milli lífsskoðunarfélaga og meðferð ríkisins á þeim. Í henni eiga ekki að vera ákvæði sem gefi einstaka hópum sérréttindi eða sérstakan sess.

Opinber skráning lífsskoðunar

Farsæld telur það ekki við hæfi að ríkisvaldið viðhafi sóknargjaldakerfi (enda er það ekki byggt á innheimtu gjalds, heldur styrkveitingu á hvern félaga, 16 ára eða eldri) en ríkið geti komið að stuðningi við aðstöðu fyrir útfarir sem gagnist öllum lífskoðunarfélögum, jafnt sem fólki utan þeirra.

Farsæld telur að svo lengi sem ríkið viðhafi sóknargjaldakeri og taki við skráningu fólks í trú- eða lífsskoðunarfélög, eigi það ekki að vera fyrir aðra en lögráða einstaklinga (18 ára og eldri). Með því eigi að fella niður sjálfkrafa skráningar nýbura (hvers foreldrar eru í sama trú- eða lífsskoðunarfélagi) í félag foreldranna. Börn hafa ekki nægan þroska til að taka ákvörðun um lífsskoðanir og sjálfsákvörðunarrétt þeirra (og rétt til að vera börn) ber að vernda þar til þau hafa lagalegan aldur til að ákveða skráningu eða halda sig utan hennar.

Athafnir við tímamót í lífi fjölskyldna - jafnræði og fagmennska

Athafnir eins og nafngjafir, giftingar og útfarir hafa sammannleg samfélagslegt gildi sem krafist er samkvæmt lögum að öll trú- og lífsskoðunarfélög bjóði meðlimum sínum. Í ljósi þess að ríkið hefur um aldaraðir hyglt einu trúfélagi, hvað allan húsakost til athafna varðar, telur Farsælt að það eigi að sjá fyrir hlutlausu (táknlausu) athafnarými fyrir öll lífsskoðunarfélög, til að standa að útförum en þá athöfn eiga allir borgarar að geta framkvæmt sómasamlega óháð efnahag, samfélagslegri stöðu eða félagaaðild. 

Komi til skilnaðar giftra hjóna, skyldi ríkið standa að veitingu lögformlegrar ráðgjafar með fulltingi faglegs hjónaráðgjafa í stað þess að krefjast þess af trú- og lífsskoðunarfélögum, sem geta þá fremur boðið valkvæmt upp á viðbótarráðgjöf, eftir getu og atvikum. 

 

Jafnræði í opinberu aðgengi og aðstöðu lífsskoðunarfélaga

Farsæld mælir gegn því að eitthvert eitt trúfélag hafi sérstakt aðgengi að opinberum stofnunum umfram önnur svo sem í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða í öðru opinberu rými. Þá eigi ekkert eitt lífsskoðunarfélag að sitja eitt að þátttöku í opinberum viðburðum svo sem við setningu Alþingis eða vígslu forseta Íslands. Mikilvægt er að ríkisfjölmiðlar hampi engu einu lífsskoðunarfélagi heldur fjalli um menningarlega fjölbreytni á trúarlega hlutlausan máta eða tryggi þar jafnræði mismunandi lífsskoðunarfélaga.

Opinber þjónusta svo sem við rekstur líkhúsa og grafreita á að mati Farsældar að vera veitt á trúarlega hlutlausum grundvelli.

Farsæld vill leggja af ívilnanir ríkisins vegna lóða- og fasteigna fyrir uppbyggingu athafnarýma sem henta aðeins einum flokki trúarskoðunar en hvetur hið opinbera til að standa að uppbyggingu hlutlausra rýma sem henta til athafna (sér í lagi útfara) á tímamótum í lífi fólks af fjölbreyttum grunni.

 

Menntakerfi meðhöndli alla jafnt

Farsæld álítur að í lögum um grunnskóla eigi ekki að gera ráð fyrir að starfshættir grunnskóla mótist af einni tiltekinni (merktri) lífskoðun eða arfleifð einnar (eða fárra) heldur eftir faglegum óháðum og sammannlegum menntastefnum án merkimiða trú- eða lífsskoðunarfélaga.

Börn skulu fá fræðslu um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir á faglegan og hlutlausan máta.

Börn eiga að vera frjáls undan boðun lífsskoðana í skólakerfinu og skulu aldrei neydd til að gefa upp eða tjá sig um lífsskoðun sína eða foreldra sinna. Trúarhátíðir ætti ekki að viðhafa í skólum eða að lágmarki ættu ekki að vera  skylda eða sem boðandi eða innrætandi starfsemi í skóla. Séu þær hluti af menningar- eða fræðslustarfsemi skóla, skulu börn aldrei sett í þá stöðu að þurfa að taka þátt í athöfnum sem ganga gegn lífsskoðun þeirra eða foreldranna.

 

Menntun á háskólastigi á ekki að þjóna ákveðinni lífsskoðun með sértækum deildum sem snúast um menntun til þjónustu brautskráðra í einstaka trúfélögum.

 

Aðstoð fulltrúa trúar- eða lífsskoðunarfélaga í erfiðum aðstæðum

Þjónustu innan heilbrigðiskerfisins á að veita alfarið á hlutlausum grundvelli. Óski sjúklingur eftir aðstoð fulltrúa frá trú- eða lífsskoðunarfélagi til ráðgjafar eða samtals, þarf aðgengi að vera tryggt á óhlutdrægan máta þegar heilbrigðisstarfsfólk telur aðstoðina ekki rekast á annað sem mikilvægt er heilsu sjúklingsins. Rými til slíks þarf að vera hlutlaust í grunninn en tímabundið sé hægt að koma fyrir táknum viðkomandi lífsskoðunar, sé þess óskað. Sama á við um öll opinber kerfi þar sem slík liðveisla gæti átt við svo sem í fangelsiskerfinu og við veitingu félagslegrar aðstoðar.

 

[1] Sjá skilgreiningar Sameinuðu Þjóðanna á hatursorðræðu á https://www.un.org/en/hate-speech/understanding-hate-speech/what-is-hate-speech

AdobeStock_1088594097.jpg
bottom of page