

Grundvöllur
Grundvallandi hugmyndir og lífsskoðanir
Skilgreining
Farsæld er veraldlegt lífsskoðunarfélag byggt á lífsskoðunum á grunni siðfræðilegrar raunhyggju[1] og náttúruhyggju, laust frá hindurvitnum og hugmyndum um æðri verur og máttarvöld. Áhersla er lögð á lífsgildi sprottin úr húmanískum heimspekistefnum með sammannleg gildi og dygðasiðfræðilegri nálgun að starfi félagsins.
Félagið leggur áherslu á heimspekilega og siðfræðilega menntastefnu og fræðastarf. Stoðir þess eiga að byggja á fagmennsku og styrkum fræðilegum grunni. Leggja skal heimspekilega dýpt í byggingu, skipan og starf félagsins. Byggja skal meðal annars á hugtakinu um heimspeki sem lífsmáta og eflingu siðferðisverunnar í stöðugri leit að þroska og auðgun lífs síns til farsældar[2].
Hugmyndafræðilegur grunnur félagsins hefur tengingu við alþjóðlegar sammannlegar hugmyndastefnur eða lífsskoðanir á borð við Amsterdam-yfirlýsingu veraldlegra húmanista (2022) [3]. Megin hugmyndastefnu félagsins skal þó byggja á sjálfstæðum grunni og beinni ábyrgð félagsmanna á henni. Sama gildir um siðareglur þær sem félagsmenn setja sér.
Tilgangur og markmið
-
Að byggja upp félagsskap fólks með sameiginlega sammannlega lífssýn, gildi og megin markmið. Innri gildi sem eru góð í sjálfu sér njóti forgangs. (Sjá nánar neðar um siðferðisgildi) Hlúa að og efla hið góða (siðferði), hið sanna (vísindalega þekkingu) og hið rétta (réttlæti og sanngirni) innan félags og utan. Jafnframt getur hið fagra (listir) stutt þessa vegferð og aukið lífsfyllingu.
-
Stuðla að mannkostamenntun og þroska – blómstrun/farsæld í lífinu (sbr. hugtakið eudaimonia) einstaklinga til styrkingar á manngerð og félagslegri hæfni þeirra. Þroskun siðvits (siðferðilegrar dómgreindar) gegnum lært gildismat og ígrundaða reynslu, og efling skynsemi í ákvörðunum út frá röklegri hugsun eru miðlæg hér. Fræða- og menntastarf í þeim greinum heimspekinnar sem tengjast þessu mest, þ.e. dygðasiðfræði og gagnrýnin hugsun. Fræðigreinin jákvæð sálfræði hefur einnig tengst þessari stefnu.
-
Stuðla að heimspekilegum lífsmáta – efla siðferðisvitund, siðferðisnæmi, siðfræðiþekkingu, samskiptafærni, hugvísindalega þekkingu, samheldni og vináttu.
-
Huga að og tjá sig um siðferðileg mál í þjóðfélaginu sem lúta að vettvangi félagsins eða almennum siðferðismálum sem varða heill allra. Þar eru ofarlega á baugi mál jafnræðis trú- og lífsskoðunarfélaga og sammannleg (veraldleg) skipan opinbers stjórnskipulags og stofnana ríkisins. Almennt verður hlutverk félagsins ekki að tjá sig um vafstur stjórnmála en ýmis mál hafa sið-félagslegt eðli sem gætu þótt málefnasviði félagsins viðkomandi.
-
Stuðningur við mál í lífsiðfræði og heilbrigðissiðfræði sem styðja við sjálfræði einstaklinga til að velja sér stefnu í málum sem varða líf þeirra og heilsu. Það er, stuðningur við frelsi fólks til að ákvarða um líf sitt og ef svo vill til, um hátt dánarstundarinnar.
-
Hlúa að og styðja við ræktun geðheilsu, almennrar heilsu, lýðheilsu og hreysti, ekki síst í tenglum við siðfræði sjálfsins, íþrótta og heilsuræktar.
-
Hlúa að og styðja verndun lífríkis og náttúru – „heilsu“ jarðarinnar. Styðja við dýravernd.
-
Krafan um jafna mannvirðingu. Styðja við jafnrétti og réttindi fólks að eiga sér persónuleg sérkenni og njóta jafnræðis óháð því.
-
Verndun þekkingar. Styðja við vísindalegan skilning á tilurð og eðli þekkingar og baráttu gegn falsi, gervivísindum og heilsusvindli. Þekking sem hið rökstutt sanna (raunverulega) um hlutina er manneskjunni dýrmæt því án skýrrar myndar af hlutum heimsins nær hún ekki að fóta sig í lífinu. Vandleg meðhöndlun vitneskju eða þekkingar er á siðferðilegri ábyrgð hverrar vitrænt hæfrar manneskju því sannindi eru grunnur allra ábyrgra mannlegra samskipta og grundvöllur ákvörðunartöku í takti við aðstæður. Mótun þekkingar krefst heilbrigðrar efahyggju og vísindalegrar varkárni og vandvirkni.
-
Hlúa að og tjá hið fagra (listir og ljóð) og vitræna í mannlífinu eftir því sem hæfir efnissviði félagsins. Listir færa manneskjunni ótal leiðir og form óhlutbundinnar tjáningar og eru uppspretta fjölbreytilegra áhrifa á hugarfar og tilfinningar. Þær eru mikilvægur hluti af vellíðan eða hamingju því fegurð lista, eða örvun, er nærandi og manneskjum eðlislægt að njóta. Listir eru einnig áhrifarík leið til að fjalla um siðferði, togstreitu og vitrænt eðli mannsins.
Siðferðisgildi, siðferðisverðmæti og félagsleg stefnumið
Húmanísk raunhyggja um sammannleg innri gildi mannvirðingu; frelsi, velgjörð, skaðleysi og réttlæti eru í forgrunni siðferðisstefnunnar ásamt dýrmætum afleiddum innri gildum mannlegra tengsla (traust, vinátta, ást, friður o.fl.), heilbrigði sjálfsins (sjálfsvirðing, þroski) og farsældar. Grunngildi siðferðis liggja í lífinu – varðveislu þess, heilbrigði og gæðum. Manneskjan er samfélagsvera og lifir ekki ein. Af gildi lífsins í samfélagi við aðrar lífverur leiða ofangreind grunngildi sem stuðla að hinu góða lífi, því sem gerir lífið þess virði að lifa því.
Góð persónuleg tengsl og mannúð
Starf og verkefni í félaginu á að byggja á góðum persónulegum tengslum þannig að allt og allir fái sitt ferli og uppbyggilegan undirbúning. Lærdómur er lykilatriði og lært sé með „upplifandi“ æfingum þar sem fólk setur sig í aðstæðurnar – þjálfar og þroskar dómgreindina – mannkostamenntun.
-
Góðvild, nærgætni, sanngirni, heiðarleiki og samheldni um góð mál eru mikilvægar dygðir sem lýsa siðferðilegri afstöðu og umleitan.
-
Mannúð og hjálpsemi – leggja til hjálparstarfs eða standa að slíku.
-
Þrautseigja og kjarkur um góð mál - til að fylgja góðri sannfæringu þarf að endast og sýna staðfestu í að láta ekki draga úr sér viljann til að halda góðri vegferð áfram.
-
Fræðimennska, fagmennska og rannsókn í samfélagi við fólk með hugsunarhátt gagnrýninnar hugsunar og ást á lærdómi.
-
Húmor – hafa gaman og léttleika í félagsstarfi (þó það víki fyrir mikilvægari hlutum).
Málefnaleg og lýðræðisleg skipan
Félagið er stjórnskipulega í megin dráttum byggt á rökræðulýðræði. Skipanin er blanda af rökræðulýðræði og atkvæðalýðræði þar sem hið fyrra er ríkjandi en hið síðara varaúrræði sem má skapa ákveðnar reglur um. Stjórn félagsins tekur ákvarðanir gegnum rökræðu og góð vinnuferli eftir því valdsviði sem lög og grundvallandi viðmið félagsins leyfa. Sjá nánar í lögum félagsins.
Félagið er opið fólki til aðildar, sem telur að lífsskoðanir þess fari saman með hugmyndagrunni, hlutverki og meginstefnum félagsins.
Samþykkt af stofnfélögum á stofnfundi Farsældar 23. mars 2025, í Safnahúsi, Reykjavík.
Amsterdam yfirlýsing húmanista 2022
(Sjá á https://humanists.international/what-is-humanism/the-amsterdam-declaration/)
Húmanískar skoðanir og gildi eru jafn gömul og siðmenning manna og eiga sér sögu í flestum samfélögum manna víða um heimsbyggðina.
Nútímalegur húmanismi er viss hápunktur þessarar löngu hefðar rökræðu um merkingu og eðli siðferðis, sem hefur veitt mörgum vönduðum hugsuðum og listamönnum heimsins innblástur og ofist inn í þróun vísinda. Sem alþjóðleg hreyfing húmanista leitumst við eftir því að gera öllu mannfólki ljós þau grunnatriði húmanískrar lífsskoðunar sem eru hér fara:
1. Húmanistar leggja sig fram við að vera siðrænir
Við álítum að siðferði sé okkur eðlislægt, byggt á þeim eiginleikum allra lífvera að geta þjáðst og blómstrað, og áhuga á velferð okkar sem hlýst af hjálpsemi í stað skaðsemi. Slíkt siðferði verður að veruleika gegnum skynsemi og samkennd og þarfnast ekki annarrar uppsprettu en þeirrar sem býr í mannkyninu sjálfu.
Við göngumst við gildiverðmæti og reisn hverrar manneskju og rétti hennar til að njóta alls þess frelsis og möguleika til vaxtar sem samrýmst getur rétti annarra. Til að svo megi verða styðjum við frið, lýðræði, réttarríki og algild lögbundin mannréttindi.
Við höfnum öllum tegundum kynþáttahyggju og fordómum, og öllu því óréttlæti sem af þeim stafa. Þvert á móti viljum við að efla og styðja farsæld og samleið mannkyns í allri sinni fjölbreytni og sérkennum einstaklinganna.
Við teljum að frelsi einstaklinga verði að fara saman með félagslegri ábyrgð þeirra. Frjáls manneskja hefur skyldur við aðrar, og við teljum okkur skuldbundin því að bera umhyggju gagnvart öllu mannkyni, kynslóðum framtíðar, og í víðara samhengi, gagnvart öllum skyni gæddum verum.
Við viðurkennum að mannkynið er hluti af náttúrunni og föllumst á ábyrgð okkar gagnvart þeim áhrifum sem við höfum á hana.
2. Húmanistar leggja sig fram við að beita skynseminni
Við erum sannfærð um að hægt sé að leysa vandamál veraldar með mannlegri skynsemi og virkum aðgerðum. Við tölum fyrir vísindalegri nálgun og óhlutdrægri rannsókn vandamálanna, en erum um leið vakandi yfir því að þó vísindin færi okkur aðferðirnar, verði mannleg gildi að vísa veginn. Við viljum nota vísindi og tækni fyrir velferð mannkynsins, en ekki af harðneskju eða til eyðileggingar.
3. Húmanistar leitast eftir lífsfyllingu
Okkur eru kærar allar uppsprettur ánægju og lífsfyllingar svo lengi sem þær skaða ekki aðra. Við teljum mögulegt að efla þroska okkar með ævilangri ræktarsemi við siðferðilega ábyrgan og skapandi lífsmáta.
Við höfum því í hávegum listræna sköpun og ímyndun, og viðurkennum afl bókmennta, tónlistar, sjónlista og sviðslista, til umbreytinga. Okkur er annt um fegurð náttúrunnar og metum mátt hennar til að vekja með okkur undrun, andakt og rósemi. Við metum mikils þá tengingu manna í millum og ávinning í þroska sem heilsurækt skapar fyrir einstaklinga og samfélag. Við höldum í heiðri leitinni að þekkingu og þeirri auðmýkt, visku og raunsæi sem hún gefur.
4. Húmanisminn – manngildisstefnan – getur svarað leit fólks eftir merkingu í lífinu
Í leit manneskja að uppsprettum merkingar og tilgangs er húmanisminn valkostur við kreddubundin trúarbrögð, andlýðræðislega þjóðernishyggju, einangrandi sértrúarhópa og sjálfhverfa tómhyggju.
Þótt við teljum að staðföst tryggð okkar við markmið velferðar fyrir mannkynið sé tímalaus, er okkur ljóst að skoðanir okkar byggjast ekki á uppgötvunum sem standast að eilífu. Húmanistar vita að enginn er óbrigðull eða alvitur og að þekking á heiminum og manneskjum verður einungis fengin gegnum sífellt ferli rannsóknar, lærdóms og endurmats.
Af þessum ástæðum viljum við hvorki forðast rýni fólks í skoðanir okkar, né sækjast eftir því að þröngva þeim upp á mannkynið. Þvert á móti, þá óskum við eftir fjötralausri tjáningu skoðana og samræðu. Við viljum vinna með fólki af ýmsum grunni, sem getur sammælst um gildi okkar, í þeim tilgangi að bæta heiminn.
Við erum sannfærð um að mannkynið hafi tök á því að ráða fram úr þeim vanda sem við stöndum andspænis. Með samhygð, ímyndunarafli og aðferðum vísindalegra rannsókna, er mannkyni kleift að stuðla að friði og farsæld mannlífsins.
Við hvetjum alla, sem sammælast þessari sannfæringu, að koma til liðs við okkur í þá heillandi vegferð sem henni fylgir.[4]
------------------------
[1] Realism er stundum þýddur sem hluthyggja í heimspekilegu samhengi en raunhyggja nær því betur, a.m.k. í samhengi við moral realism – siðferðileg raunhyggja. Hugtakið positivism hefur einnig verið þýtt sem raunhyggja og oft notað í samhenginu „logical positivism“ eða rökfræðileg raunhyggja. Positivism á sér einnig þýðinguna „vissustefna“.
[2] Hér er einkum átt við þá hugmynd markhyggjunnar að blómstra (flourish) í lífinu, ná farsæld í heimspekilegum skilningi. Hugtakið kemur úr smiðju Aristótelesar og kallast eudaimonia á forn-grísku.
[3] Sjá á heimasíðu Humanists International https://humanists.international/ (sem áður hét International Humanist and Ethical Union og var stofnað 1952 í Amsterdam, Hollandi).
[4] Þýðandi: Svanur Sigurbjörnsson, apríl 2025.