
Janúar 2026
Heilabrotið
Ritgerðarsamkeppni Farsældar
Farsæld blæs nú til árvissrar ritgerðarsamkeppni ungs fólks
um siðferðileg álitamál í samfélaginu.
Öllum háskólanemum landsins í grunn- og framhaldsnámi er boðið að taka þátt ásamt öllum ungum fullorðnum íbúum landsins á aldrinum 19 - 29 ára.


Verndari
Vilhjálmur Árnason, fv. prófessor
Tilgangur
Tilgangur samkeppninnar er að örva ungt fólk til vandaðrar siðferðilegrar hugsunar og skrifa um álitamál í samtíðinni og veita þeim jafnframt tækifæri til viðurkenningar og birtingar á ritverki sínu. Farsæld hvetur því alla háskólanema eða ungt fólk á aldrinum 19 - 29 ára sem hafa verið að brjóta heilann um siðferðileg álitamál í samtímanum að taka þátt.
Verndari
Verndari Heilabrotsins er Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus í heimspeki við Háskóla Íslands. Verk hans eru þjóðkunn og hafa valdið straumhvörfum í kennslu og umræðum um siðferðileg álitaefni í samfélaginu um fjögurra áratuga skeið. Vilhjálmi er annt um framgang upplýstrar samfélagslegrar umræðu og að ungt fólk láti sig siðferðileg málefni varða. Vilhjálmur mun afhenda sigurvegurum Heilabrotsins verðlaun þess á viðurkenningardegi samkeppninnar.
Stærð og form ritgerða
Um er að ræða fremur stuttar ritgerðir, 3000 til 5000 orð að lengd, um siðferðileg álitamál í samtímanum, sem jafnframt mega snúast um lausnir til farsællar útkomu. Skilafrestur er til 1. mars 2026.
Ritgerðirnar mega vera skrif sem unnin voru í kúrsum en hafa ekki fengið opinbera birtingu. Þær mega vera samvinnuverkefni 2 - 3 höfunda ef svo ber undir en unnar sjálfstætt og án innleggja gervigreindar. Sjá nánar mikilvægar upplýsingar hér neðar.
Matsferli innsendra ritgerða
Í mars fer dómnefnd (sjá nánar hér neðar) yfir innsendar ritgerðir. Í fyrstu er farið yfir grunnskilyrði þess að ritgerðin uppfylli lágmarkskröfur um þátttöku og eftir það (ef stenst) er höfundur látinn vita og fer ritgerðin þá í nánara mat dómnefndar.
Tilkynning og viðburður úrslita
Úrslit Heilabrotsins verða kynnt á opinni málstofu Farsældar í apríl 2026 - dagsetning auglýst síðar.
Á málstofunni kynnir höfundur sigurritgerðinnar efni hennar stuttlega og fær afhenta viðurkenningu félagsins og verðlaun. Jafnframt verður tilkynnt hvaða höfundar hljóta 2. og 3. sæti í samkeppninni. Þátttakendur þurfa að taka frá tíma til mætingar á málstofuna - á staðinn eða gegnum netið verði öðru ekki komið við.
Birting sigurritgerða
Á hverju ári verður sigurritgerðin ásamt ritgerðum í 2. og 3. sæti birtar á heimasíðu Farsældar á sérstöku svæði ætluðu fyrir ritgerðirnar.
Nánari lýsing á efnistökum og frágangi
Efnistök. Ritgerðirnar eiga að lýsa (í meginmáli hennar) siðferðilegum veruleika í samfélaginu (sem mega jafnframt hafa alþjóðlega skýrskotun, eftir atvikum). Í ályktunarhluta skal lýsa ályktun og mögulega tillögum til farsælla lausna eða vangaveltum höfundar um efnið. Horft er til atriða eins og hnitmiðunar í máli, víðsýni og óhlutdrægni í fyrirtöku forsenda / raka, skilnings á efni og skýrleika / framsýni í ályktunum/framtíðarsýn/tillögum. Einnig er horft til góðs valds á íslensku máli og góðs flæðis á efni.
Form. Hámarksfjöldi orða er 5000 og lágmark 3000 orð. Vanda skal frágang og gera skýrt grein fyrir heimildum þar sem það á við. Sé vitnað beint í skrif annarra höfunda skal nota gæsalappir eða inndrátt textans. Skrifin skulu unnin sjálfstætt og án innleggja gervigreindar.
Skilaform. Skjalinu skal skilað sem word/rtf/texta eða pdf-skjali, viðhengdu í innsendingarbréfi til ritgerd (@) farsaeld.is. Ekki er tekið við hlekkjum á skjöl eða skjölum á öðru formi. Skilatitill bréfs: "Ritgerðarsamkeppni 2026"(eða annað sambærilega skýrt). Ritgerðin sjálf skal vera nafnlaus en í innsendingarbréfi skal koma fram nafn höfundar, kennitala, netfang, heimilisfang og símanúmer. Viðtakandi netpóstins hjá Farsæld hefur svo umsjón með nafnlausum skilum ritgerðarinnar til dómnefndar samkeppninnar. Skilafrestur er út 1. mars 2026.
Dómnefnd. Í dómnefnd ritgerðarsamkeppninnar sitja þrír reyndir háskólamenntaðir aðilar. Þeir setja sér reglur um yfirferð ritgerðanna og viðmið um gæði þeirra. Dómnefndin kemur saman að yfirferð lokinni og kemur sér saman um sæti ritgerðanna.
Niðurstöður. Þátttakendur fá að vita um niðurstöðu dómnefndar 1 viku fyrir málstofu Farsældar. Í niðurstöðunni kemur fram hvort þátttakandi hafi náð inn í úrslit eða ekki, en ekki er tilkynnt um sæti fyrr en á málstofunni sjálfri. Þátttakendur þurfa að taka frá tíma til mætingar á málstofuna - á staðinn eða gegnum netið verði öðru ekki komið við.