top of page
< Fréttayfirlit

Vetrarsólstöður - húmanísk hátíð

Svanur Sigurbjörnsson

21. des. 2025

Húmanískar hugsanir um merkingu vetrarsólstaða

Í dag er 21. desember. Það skiptir ekki máli hvert árið er því athygli mín beinist að deginum sem slíkum. Samkvæmt stjörnufræðinni bera sólstöður ekki alltaf nákvæmlega upp á 21. des. heldur eru þær tímapunktur (upp á mínútu) sem færist svolítið á milli ára og getur verið frá 20 - 22. des. ár hvert.


Líffræðileg klukka dýra og plantna skynjar birtuskiptin og árstíðirnar sem fylgja, sérstaklega við pólarsvæði jarðarinnar. Birtan og veðurlagið hefur áhrif á líkama okkar og lífsviðurværi en það er ekki það eina. Manneskjur elska að búa til táknrænar merkingar og setja þær inn í menningu okkar og því eru margar hátíðir ýmissa menningarsamfélaga tengdar þessum árlegu tímamótum - heiðin jól, kristin jól, Hanukkah gyðinga, Yalda Nótt persa, Soyal athöfn Zuni frumbyggja í Nýju Mexikó og Dongzhi hátíðin í Kína, svo nokkur dæmi séu nefnd.


Húmanistar hafa ekki haft mikla festu í hefðum hingað til enda er húmanískt gildismat fremur á þá leið að horfa til þess skynsama hverju sinni fremur en að njörva fætur okkar í stíft bundna samfélagslega dagskrá. Frelsið er mikilvægt og hátíðir þurfa að hafa sitt sjálfstæða aðdráttarafl því fólk má ekki neyða til þátttöku í þeim. Í húmanismanum er horft til jafnvægis á milli sjálfræðis (og þarfa) einstaklinganna og samfélagslegra menningarþarfa. Við þurfum ekki að binda okkur við annaðhvort heldur getum við sinnt hvorutveggja eftir því sem efni og ástæður segja okkur til. Húmanisminn hafnar kreddum og leggur ekki skyldur á herðar fólki út frá hefðum einum saman, þó svo þær hafi oft góð samfélagsleg áhrif.


Táknræni og samhugur fólks við tímamót hafa gildi og skapa tækifæri til að koma saman og gleðjast eða stilla huga okkar saman um einhver góð verðmæti í lífinu. Í hugum margra húmanista eru vetrarsólstöður (og sumarsólstöður) ágæt tímamót sem tengja manneskjur við jörðina, sólkerfið, lífsklukkuna og svo í meira óhlutstæðri merkingu - upphaf, fæðingu eða endurnýjaðan vöxt einhvers nýs og fallegs í tilverunni.


Á norðurhveli getur dimman táknað öldudal einhvers eða lámark, sem við svo stígum smám saman upp úr og hefjum endurnýjaða leið til betri lífsskilyrða, vaxtar og þroska. Það má líka tákna að myrkur ósættis og ófriðar fari að sjá dagsins ljós í sáttum og friði. Ekki veitir af þeim vonum í huga okkar þar sem margir eiga um sárt að binda hvað ófrið eða ofbeldi varðar. Vetrarsólstöður geta því verið hátíð hugarfars siðferðilegrar fyrirhyggju og uppbyggilegrar framtíðarsýnar.


Í húmanisma má einnig tengja sólstöðurnar við gildi hins raunsæja gagnrýna og vísindalega hugarfars sem hefur skilað svo miklum framförum fyrir mannlífið. Húmanistar tengja þar við hetjur vísindanna eins og Galileo Galilei, Marie Curie og Carl Sagan sem færðu okkur skilningu um hið ógnarstóra - himinngeyminn - og hið ógnarsmáa - atómin. Þau gerðu ekki aðeins það heldur vöktu okkur einnig til hugsunar um undur heimsins og þær hrífandi upplifanir sem þau færa okkur. Hljóð, form, áferð og litir náttúrunnar eru okkur sífelld uppspretta upplifana sem veita okkur merkingu og gleði sem býr djúpt í okkur, enda erum við ein af börnum náttúrunnar.


Menningarlega er því ekki slæm hugmynd að nota sólstöður til að fagna þessu saman. Það er val.


[PS: Til gamans má geta þess að myndin með hugvekjunni er gerð með því að setja tekna sólarlagsmynd sem bakgrunn fyrir nýja mynd sem ChatGPT myndar út frá henni og orðunum "Galileo Galilei, winter solstice, earth orbiting the sun".]

  • Facebook
  • Instagram

Farsæld - húmanískt lífskoðunarfélag

Hafnarstræti 5, 101 Reykjavík

kt. 580625-0960

bottom of page