
Spjallfundur um dánaraðstoð: Hvernig gætu góð lög um hana litið út?

Stjórn Farsældar
17. nov. 2025
Hvað ef ekki lengur hvort heldur hvernig?
Mikilvægur hluti siðferðilegs réttmætis þess að lögleiða valkvæma dánaraðstoð er að lagaramminn sé skynsamlegur og í honum sé gætt að fjölmörgum mikilvægum atriðum varðandi mat og framkvæmd. Fyrir rúmu ári síðan lagði þingflokkur fram frumvarp til laga um dánaraðstoð. Þó frumvarpið væri að mörgu leyti haganlega gert mátti bæta það. Fjölmargar umsagnir voru sendar inn og meðal þeirra var umsögn Lífsvirðingar - félags um lögleiðingu dánaraðstoðar, þar sem ýmsar vel ígrundaðar bætingatillögur komu fram. Í ljósi efnis þessa frumvarps og þeirra hugmynda sem eru uppi um hvar eigi að setja mörkin varðandi veitingu dánaraðstoðar, ætlum við að ræða málið.
Ýmsar hreyfingar eru í gangi í nágrannalöndum okkar, til dæmis í Bretlandi þar sem frumvarp þess efnis var samþykkt síðasta sumar. Í Finnlandi er fremur jákvætt umhverfi gagnvart málinu á þingi en meiri óvissa er á hinum Norðurlöndunum.
Í pallborði verða Ingrid Kuhlman, MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði og formaður Lífsvirðingar, Sævar Finnbogason, MA í heimspeki, BA í HHS og varaformaður Farsældar, og Svanur Sigurbjörnsson, læknir, BA í heimspeki, MA í heilbrigðissiðfræði og formaður Farsældar. Stjórnandi umræðunnar er Bjarni Jónsson, stjórnarmaður í Lífsvirðingu.
Fundurinn verður einnig á Zoom. Sjá hlekk hér: https://eu01web.zoom.us/j/67700059669
Gestir á zoom geta sent in skriflegar spurningar á spjallrás sem umsjónarmaður kemur á framfæri gefist tækifæri til þess.