
Námskeið: Húmanísk heimspeki, siðfræði og saga

Stjórn Farsældar
19. okt. 2025
Helgina 24. - 26. október
Kennt: fös 24/10 15:00 – 17:30, lau 25/10: 9:30 – 12:00 og sun 26/10: 9:30 – 12:00.
Í Bókastofu ReykjavíkurAkademíunnar, Hafnarstræti 5, 3. hæð.
Í þessu stutta námskeiði um húmanismann eru meginlínur í hugmyndafræði hans kynntar og áhrif hans í sögulegu samhengi útskýrð. Hvernig hefur húmanismi áhrif á siðferði, þekkingu og hversdagslífið? Skerst hann inn í stjórnmál að einhverju leyti og hver eru tengsl hans við gagnrýna hugsun og vísindi? Húmanismi hefur orð á sig fyrir að vera alþjóðlegur og höfða til "heimsborgara", en á hann þá ekki heima í þrengra samhengi smærri byggða og inni í lífi fjölskyldna? Af hverju er trúleysi ófrávíkjanlegur hluti af siðrænum húmanisma? Hvaða fólk hefur barist hve mest fyrir húmanískri heimsmynd?
Kennslufyrirkomulag: Fyrirlestrar, videó, stuttir textar til lestrar. Stutt hópverkefni og umræður. Fyrir skráða þátttakendur sem komast ekki á staðinn er þátttaka gegnum fjarfund (Zoom) í boði.
Leiðbeinendur: Svanur Sigurbjörnsson (og umsjón), Sævar Finnbogason, Jóhann Björnsson.
Námsefni: Stuttar greinar og textar sem dreift er í PDF-hefti eða prentuðu formi, ef þarf. Dæmi úr sögunni og samtímanum. Ábendingar gefnar um hvar hægt er að lesa nánar um húmanisma.

Námsmat? Tilgangur námskeiðsins er að gefa áhugasömum þægilegt tækifæri til að auka þekkingu og skilning á húmanisma án námsmats. Síðar meir er líklegt að Farsæld setji á fót viðameira námskeið um húmanisma með námsmati og þá gæti þetta námskeið þjónað sem kynning eða undanfari slíks.
Skráning
Námskeiðsgjaldið er kr. 12.000,- (félagar 6.000,-)
Lágmarksfjöldi þátttakenda: 7 (Hámark 15).
Skráningarfrestur: Lágmarksfjöldi þátttöku þarf að liggja fyrir miðv. 22. okt. á miðnætti. Tilkynning til þáttakenda verður send út morguninn fim. 23. okt. eða fyrr, eftir atvikum, þegar lágamarki er náð.
Skráning fer fram á skráningarsíðu námskeiða félagsins: Skráning í námskeið
(Myndirnar tvær - Reiðu og glöðu mótmælendurnir: ChatGPT-5 - fyrirmæli og eftirvinnsla: Svanur Sig).