

Stjórn Farsældar
25. mai 2025
Húmanískt lífsskoðunarfélag
Farsæld - húmanískt lífsskoðunarfélag var stofnað á stofnfundi félagsins þann 23. mars 2025 í Safnahúsi, Reykjavík. Á fundinum var stofnskjal félagsins samþykkt af stofnendum. Í því eru félagslög, hugmyndagrunnur, siðareglur og stefna um frelsi til lífsskoðana og jafnræði. Stjórn félagsins var kosin ásamt tveimur skoðunarmönnum reikninga. Sjá nánar á Um okkur síðu vefsins.
Farsæld er stofnað til að vera vettvangur fyrir umræðu og lærdóm um þau gildi sem skipta fjölskyldur í samfélaginu verulegu máli og hafa áhrif á líf okkar. Í hugmyndagrunninum segir meðal annars: Farsæld byggir á
lífsskoðunum á grunni siðfræðilegrar raunhyggju og náttúruhyggju, laust frá hindurvitnum og hugmyndum um æðri verur og máttarvöld. Áhersla er lögð á lífsgildi sprottin úr húmanískum heimspekistefnum með sammannleg gildi og dygðasiðfræðilegri nálgun að starfi félagsins.
Félagið býður upp á athafnaþjónustu fyrir nafngjafir, giftingar og útfarir. Megináhersla í starfi félagsins er málefnabarátta, fræðslustarf og umræður. Dagskrá þess efnis verður auglýst síðar.