
Farsæld fær hæfandi vinnuaðstöðu og aðsetur!

Stjórn Farsældar
7. okt. 2025
Stórhuga stjórn rennir frekari stoðum undir félagið
Þann 1. október síðastliðinn tók Farsæld það stóra skref í stuttri sögu sinni að koma sér upp skrifstofu og aðsetri með leigusamningi við ReykjavíkurAkademíuna (RA). Húsnæðið er á 3. hæð RA við Hafnarstræti 5, í miðbæ Reykjavíkur. Um er að ræða snotra skrifstofu, samnot af fundarherbergi, kaffistofu og seturýmum. Undir sama þaki er Akademíusalurinn og Bókastofa RA sem nýta má til funda, námskeiða og samkoma. Þó félagið sé ungt vill stjórnin renna styrkum stoðum undir starfsemi þess og hafa umgjörð þess sem faglegasta. Starfsemi félagsins fer vel saman með stefnumiðum RA sem er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun sem styður við sjálfstætt akademískt starf og rannsóknir. Með þessum myndarlega skrefi uppbyggingar setur stjórn Farsældar tóninn fyrir frekari blómstrun félagsins í vetur!
Í tilefni undirskriftar leigusamningsins og afhendingu lyklanna voru Svanur, Júlía Linda og Unnur úr stjórn (sjá mynd fyrir neðan) Farsældar mætt í Bókastofuna með Arndísi Gunnarsdóttur framkvæmdarstjóra RA (sjá mynd að ofan) en hún hefur tekið einstaklega vel á móti okkur fyrir hönd RA. Nánari upplýsingar um ReykjavíkurAkademíuna má finna hér.
