
Áfengisdrykkja og íþróttaviðburðir - á það samleið?

Stjórn Farsældar
16. okt. 2025
Málfundur fim. 23. okt. kl 17:00 í Akademíusalnum
Á sama tíma og sala áfengra drykkja tekur á sig æ fleiri myndir og fer fram á fjölbreyttari stöðum í þjóðfélaginu heyrist hærra í baráttufólki fyrir skýrt afmörkuðum línum í sölu og framboði áfengis, sérstaklega þar sem ungmenni deila rými með fullorðnum. Jafnframt vilja samtök eins og Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, halda sölu og neyslu áfengis frá opnum íþróttaviðburðum. Á móti vilja framleiðendur ýmissa áfengistegunda og ýmsir talsmenn fjáröflunar hjá íþróttasamtökum geta notið þeirra tekna sem af sölu áfengisins getur orðið á viðburðunum. Með því megi koma góðu til leiðar.
Hér skarast hagsmunir og áherslur í gildismati virðast að nokkru ólíkar. Mat á afleiðingum mismunandi tilhögunar á þessu virðist ekki heldur vera það sama. Getur siðfræðin hjálpað til við að finna ásættanlega lausn fyrir samfélagið eða verður þetta ákveðið á vettvangi stjórnmálanna? Getum við komið saman í umræðum með opin hug og það sameiginlega markmið að leita að því siðferðilega besta í málinu óháð því hvar við stöndum í dag? Erum við tilbúin að hafa rangt fyrir okkur í ljósi bestu raka? Er hægt að greiða úr flækjustigi málsins? Við ætlum að reyna að leita svara við þessu á þessum málfundi.
Frummælendur eru Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, Agnar Már Jónsson, framkvæmdarstjóri Gólfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) og Svanur Sigurbjörnsson, siðfræðingur, formaður Farsældar. Eftir framsögur þeirra er opnað á umræður.