

Lög Farsældar
Félagslög Farsældar
1.gr. Heiti, hlutverk og markmið
1.1. Félagið heitir Farsæld - húmanískt lífsskoðunarfélag. [Eftir opinbera skráningu þess sem lífsskoðunarfélag starfi það í samræmi við langslög nr. 108/1999 með síðari breytingum.]
1.2. Heimili þess er á Íslandi og varnarþing á höfuðborgarsvæðinu.
1.3. Upplýsingaveita og birting félagslaga, hugmyndagrunns, siðareglna, samþykkta og mikilvægra tilkynninga fer fram á heimasíðu félagsins (www.farsaeld.is). Með meginskjölum félagsins skal birta breytingarsögu neðanmáls (eða með öðrum skýrum hætti). Stjórn getur einnig ákveðið um útgáfu ítarefnis eða nánari útskýringa á skjölunum. Félaginu er heimild að stofna (rafrænan) póstlista félagsmanna eftir samþykkt hvers og eins til þátttöku.
1.4. Meginhlutverk þess og markmið eru að:
-
verja og halda félagsstarfsemi utan um siðferðilega og þekkingarlega raunhyggju (eða náttúruhyggju) sem í fjölbreyttum hugmyndafræðilegum og praktískum myndum sínum rúmast undir hinn sammannlega húmanisma. (Sjá nánar í skjölunum Hugmyndagrunnur Farsældar og Siðareglur Farsældar).
-
halda úti fræða- og menntastarfsemi um siðfræði og gagnrýna hugsun. (Sjá nánar síðar í skjali um menntastefnu). Í þessu geta falist m.a. námskeiðshöld styttri eða lengri námskeiða, hald málþinga, stakra málfunda, rökræðna, þjálfun gagnrýninnar hugsunar og svo framvegis.
-
verja og fjalla um sammannlega (veraldlega) skipan samfélagsins (secular) þar sem stjórnarskrá, lög, löggjafi, framkvæmdavald og stofnanir ríkis og sveitarfélaga byggja á og starfa á sammannlegum grunni án merkimiða einstaka trú- eða lífsskoðunarfélaga eða stjórnmálastefna. (Sjá nánar í Stefna Farsældar um frelsi til lífsskoðana og jafna meðferð).
-
standa að athöfnum á grunni húmanískrar hugmyndafræði. Farsæld standi að menntun, þjálfun og gæðamati athafnarstjóra og ákveði svið og umfang athafnaþjónustu sinnar. [Sjá nánar síðar í skjali um stefnu athafnaþjónustu Farsældar]
-
hafa samvinnu við innlendar, erlendar eða alþjóðlegar hreyfingar húmanisma eða siðfræðilegrar raunhyggju. Stjórn getur einnig ákveðið að félagið komi að samvinnu á grunni samráðsvettvangs trú- og lífsskoðunarfélaga, eða tímabundinni/langvinnri samvinnu við annarskonar félög sem tengjast markmiðum félagsins.
2. gr. Félagsaðild og stjórnskipan
2.1. Lögráða einstaklingar sem skilja og vilja styðja markmið félagsins geta gerst fullgildir félagar.
2.2. Gildir félagar og réttindi þeirra. Félagar teljast þeir lögráða einstaklingar sem skrá sig í félagið hjá ritara/gjaldkera eða öðrum umsjónaraðila/skráningaraðila félagaskrár Farsældar (samkvæmt ákvörðun stjórnar félagins um skráningar) og hafa greitt félagsgjald (samkvæmt ákvörðun stjórnar um tilvist þess eða upphæð). Atkvæðisréttur gilds félagsmanns á aðalfundi er skilyrtur við að hafa skráð sig í félagið árið áður, og eftir atvikum að félagi skuldi ekki félagsgjöld þess árs, séu þau við lýði. Kjörgengi (framboðsréttur) og tillöguréttur er ekki háður þessu skilyrði um skráningu árið áður (sjá annars um þau í gr. 2.42 Framboðsfrestur og kynning). Gildir félagar hafa rétt til að leggja fram lagabreytingatillögur sem leggja þarf fram með minnst 21 dags fyrirvara fyrir aðalfund. Jafnframt hafa þeir rétt til munnlegra eða skriflegra innleggja við lagabreytingatillögur stjórnar eða annarra félagsmanna. Endanlegar tillögur eiga að vera skriflegar. (Sjá nánar hér undir gr. 2.31c).
Samþykktir stjórnar um árlegt félagsgjald sem rukkað er árlega skulu birtar á vefsíðu félagsins. Skráning félagsmanns telst í gildi þar til aðili tilkynnir vilja sinn um annað. Gjaldkeri í stjórn hefur umsjón með félagaskrá.
Heimilt er að skrá ólögráða aðila í félagið en þeir teljast aukaaðilar og hafa ekki kjörgengi (atkvæðis-, framboðs- eða tillögurétt). Leitast skal eftir því að fá sjálfstæða ákvörðun þeirra um fulla aðild þegar lögaldri er náð, eftir því sem tök eru á. [Útskýring: Í skráningu fólks hjá Þjóðskrá/Hagstofu í trú- eða lífsskoðunarfélög er ekki gerður þessi greinarmunur og allir félagsmenn 16 ára eða eldri mynda grunninn að úthlutun sóknargjalda til félaganna]
2.3. Stjórnskipan og ákvörðun laga.
2.31. Stjórnskipan skal vera á grunni upplýsts lýðræðis sem felur í sér:
-
Málefnalegt rökræðulýðræði (MRL) (Sjá nánar í Málefnaleg aðferð og ferli) sem stjórn félagsins heldur utan um undir forystu formanns. Öll mál félagsins falla undir þessa leið utan þess sem lögin nefna að sé undir málefnalegu atkvæðalýðræði. Nánar er kveðið á um málefnalegt hugarfar og færni í félagsstarfi í skjalinu Viðmið um starf og starfshætti stjórnar og ráða/nefnda. Aðilar í stjórn, ráðum, nefndum eða öðrum hlutverkum hjá félaginu skulu hafa þessi viðmið, hugmyndagrunn, siðareglur og aðrar skjalfestar stefnur félagsins að leiðarljósi.
-
Málefnalegt atkvæðalýðræði (MAL) sem felur í sér opna eða leynilega atkvæðagreiðslu (eftir atvikum) um málefni félagsins eða hlutverk/stöður félaga í því í eftirfarandi tilvikum:
-
Innan stjórnar þegar upplýst og málefnaleg umræða hefur ekki borið þann árangur að góð sátt sé um mál. (Sjá nánar í 2.32)
-
Á meðal allra gildra félagsmanna þegar meirihluti stjórnar eða formaður vísar máli í slíka atkvæðagreiðslu.
-
-
Skipan stjórnar og valdsvið.
-
Fjöldi aðila í stjórn, hlutverk og tímalengdir setu. Stofnfundur félagsins kemst að samkomulagi eða kýs með atkvæðagreiðslu 5 hæfa aðila í aðalstjórn og 2 aðila í varastjórn. (Séu ónæg framboð má fækka í 3+1) Kjörin stjórn gerir með sér skjalfest samkomulag um hlutverk sín: formaður, varaformaður, gjaldkeri, og stjórnarmaður og birtir, ásamt samkomulagi um tímalengd sem má vera 1-3 ár fyrir formann og 1-2 ár fyrir aðra stjórnarliða. Æskilegt er að félagi í framboði til stjórnar tiltaki fyrirhugaða tímalengd sína í stjórn (innan fyrrgreindra tímamarka) við kynningu á framboði sínu. Hlutverk fundaritara þarf ekki að vera fast og má einnig vera í formi utanaðkomandi aðstoðar (eða upptöku), eftir ákvörðun stjórnar. Stjórn má bjóða aðila utan stjórnar á stjórnarfundi til öflunar upplýsinga eða til umræðu um mál sem varða félagið. Stjórnarliðar hafa trúnaðarskyldu um viðkvæm mál eða persónuleg sem kunna að vera rædd.
-
Kjörgengi til formanns eða stjórnarmennsku hafa (i) gildir félagsmenn sem hafa (ii) jafnframt áunnið sér traust (eða trúverðugleika) hjá stjórn félagsins sem hæfir aðilar í málefnalegri umræðu, viðmiðum gagnrýninnar og óhlutdrægrar hugsunar, siðferðilegri dómgreind og þekkingu á húmanískum hugmyndagrunni. Með hæfi er einnig hér átt við að aðilar séu að lágmarki ekki truflandi, hamlandi eða skaðlegir starfi stjórnar, en stefnt skal að því æskilegasta; að þeir séu uppbyggjandi fyrir stjórnarstarfið og félagið. Sjá í skjalinu Viðmið um starf og starfshætti stjórnar og ráða/nefnda. Það skal því ekki leyfa til kjörs eða velja óþekkta aðila eða aðila sem vafi leikur á um að uppfylli hæfi til stjórnarsetu. Sitjandi stjórn sker úr um þessi skilyrði (skv. a-lið 2.31 og a-lið 2.32) og getur þróað áfram þessi skjalfestu viðmið til leiðbeiningar. Þetta á jafnt við um kjör til formennsku, varaformennsku og annarra sæta í stjórn eða varastjórn. Til kjörgengis þarf einnig hreina sakaskrá.
-
Val og samþykkt aðila í stjórn. Stjórn getur sjálf ákveðið um val og samþykkt aðila til stjórnarsetu í öll hlutverk þess utan formanns og varaformanns, sem skal fara fram á aðalfundi. Stjórnin getur ákveðið að fela aðalfundi kjör á öllum stjórnarmeðlimum, eftir atvikum og meirihlutasamþykkt hennar. Formaður og varaformaður hafa rétt til setu í þá tímalengd sem stjórn skrifaði birta samþykkt sína um, eftir kjör þeirra. Stjórn getur ákveðið að breyta tímalengd setu eigin stjórnarliða samkvæmt umfjöllunarreglu í a-lið 2.32, en að hámarki samkvæmt hámarki tilgreindra ára í lögum. Aðalmenn í stjórn hafa tillögu- og atkvæðarétt en varamenn eingöngu tillögurétt, nema þegar þeir leysa af aðalmann, skv. beiðni formanns. Í tillögurétti felst réttur til að mega ræða mál og bera fram tillögur til ákvörðunar hjá stjórn.
-
Ómálefnaleg hegðun eða siðabrot. Verði stjórnarmaður eða varamaður í stjórn (eða annar aðili sem gegnir einhverju hlutverki fyrir félagið) uppvís að endurtekinni truflandi eða ósæmandi hegðun eða ómálefnalegri þátttöku í umræðum, getur formaður, að höfðu samráði við varaformann eða aðra í stjórn, leitað leiða til úrbóta hjá viðkomandi. Sé bót ónæg, getur formaður, með fulltingi meirihluta stjórnar, eftir atvikum, gripið til þess að víkja viðkomandi úr stjórn (eða öðru hlutverki). Hið sama getur gilt um brot á siðareglum, góðu siðferði eða hegðun gegn markmiðum og hugmyndagrunni félagsins. Gæta skal hófs, nærgætni, góðs rökstuðnings og hreinskiptni í öllum slíkum samskiptum. Sjá nánar um málsmeðferðir stjórnar í gr. 2.32b.
-
Lagabreytingavald stjórnar og ferli lagabreytinga. Stjórn getur lagt til lagabreytingar og samþykkt þær sjálf til opins lagabreytingaferlis, að því gefnu að formaður og að minnsta kosti 3 af 4 öðrum stjórnarliðum séu tillögunni samþykkir. Formaður félagsins skal gæta þess að lagatillögur hafi hlotið vandaða skoðun og umræðu innan stjórnar áður en þær eru bornar til opinnar umræðu. Tvennskonar lagabreytingaferli eru leyfð: a) Gegnum opinn lagabreytingarfund og ákvörðun stjórnar í kjölfarið, eða b) Gegnum aðalfund og samþykkt tillögunnar þar (sjá í gr. 2.41 Efni og valdsvið aðalfundar). Birta þarf fyrirhugaða lagabreytingartillögu á heimasíðunni (og tilkynna víðar eftir því sem miðlun upplýsinga til félagsmanna nær yfir hverju sinni) með minnst 28 daga fyrirvara um fyrirtöku til endanlegrar samþykktar hjá stjórn (leið a). Stjórn skal efna til Lagabreytingarfundar 14 dögum frá birtingu og bjóða þar félagsmönnum að ræða tillöguna, og leggja þar fram skriflegar breytingartillögur, sé vilji fyrir því, ellegar leggja þær fram í síðasta lagi (með innsendingu) 5 dögum fyrir fyrirtökudag stjórnar (28 – 32 dögum eftir birtingu). Stjórn skal ræða við aðila sem vilja leggja til málsins og getur í framhaldinu ákveðið frekari umræðu eða fyrirtöku til samþykktar, með breytingartillögum, eftir atvikum. Lokasamþykkt stjórnar þarf fyrrgreindan meirihluta til gildistöku (formaður auk 3-4 stjórnarmanna). Áorðnar lagabreytingar skal stjórn birta á heimasíðu félagsins innan 1 viku frá samþykkt og taka þær þá gildi. Undantekning: Stjórn hefur þó ekki vald til að breyta lögum um fjölda stjórnarliða eða um aukningu valdsviðs eða hámarkstíma síns til stjórnarsetu. Stjórn getur vísað nánari umræðu og samþykktum lagabreytingartillagna til aðalfundar (sjá í leið b). Formbreytingar: Meirihluti stjórnar að formanni meðtöldum, getur án opins lagabreytingaferlis breytt skipulagi, uppbyggingu, orðun eða orðalagi laganna, enda sé ekki um efnislega breytingu á merkingu laganna að ræða. Stjórn getur sent út tilkynningu á vefsíðu félagsins um breytinguna, telji hún þess þörf, eftir umfangi þeirra eða öðrum kringumstæðum.
-
Stjórn ákveður um félagsgjald og birtir á vefsíðu félagsins fyrir lok hvers almanaksárs (fjárhagsárs).
-
Stjórn ákveður um ýmis þjónustugjöld félagsins, en getur fengið álit viðeigandi nefndar/ráðs um viðkomandi þjónustu áður, eftir atvikum. Stjórn getur kallað inn varamann eða gert aðrar ráðstafanir (matsnefnd, matsmenn) telji hún hættu á hagsmunaárekstri eða óæskilegrar ásýndar hans við þessar ákvarðanir.
-
2.32 Samspil málefnalegs rökræðu- og atkvæðalýðræðis
-
Mál eru rædd og útkljáð í stjórn og nefndum/ráðum eftir leiðum málefnalegra rökræðna. (Sjá í Viðmið um starf og starfshætti stjórnar og ráða/nefnda). Leitast skal eftir vandaðri rannsókna mála og svo samkomulagi eftir bestu rökum eða vali góðra valkosta, en komi til ósamkomulags getur formaður (að eigin frumkvæði eða eftir tillögu annarra) (i) efnt til frestunar umræðna og nánari rannsókn mála, eða (ii) efnt til atkvæðagreiðslu innan stjórnar eða (iii) efnt atkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna, allt eftir atvikum og rökstuddri ákvörðun um þar um.
-
Í tilviki atkvæðagreiðslu um menn (hlutverk) eða málefni innan stjórnar skal fara eftir meirihluta skráðra stjórnarmanna í aðalstjórn. Sé stjórnarmaður ekki talinn eiga viðeigandi aðkomu að máli vegna sterkra hagsmunaárekstra skal varamaður (valinn af handahófi milli tveggja) taka stað viðkomandi í málinu og atkvæðagreiðslu um það. Stjórn fjallar um mögulega hagsmunaárekstra og formaður tekur svo ákvörðun um viðbrögð (en stjórn ef það varðar formanninn).
2.4. Aðalfundur
2.41. Boðun aðalfundar. Aðalfund skal boða með 28 daga fyrirvara og halda árlega í febrúar eða mars. Fundarboð skal birt á vefsíðu félagsins og sent með rafrænum pósti til þeirra félagsmanna sem hafa kosið að vera á póstlista. Stjórn félagsins má að auki vekja athygli á aðalfundi gegnum aðra miðlun upplýsinga.
2.42. Efni og valdsvið aðalfundar.
-
Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
-
Kynning, umfjöllun og samþykkt undirritaðra ársreikninga. Fjárhaldsár félagsins er samkvæmt almanaksári (1. jan - 31. des).
-
Birtingu og samþykkt fjárhags- og framkvæmdaáætlunar stjórnar.
-
Kjör formanns og/eða varaformanns þegar birtum starfstíma þeirra lýkur.
-
Framboð til formanns er að lágmarki til 1 árs en hámarki 3 ára.
-
Framboð til varaformanns er til 1 - 2 ára.
-
-
Kjör annarra stjórnarmanna og varamanna í stjórn ef stjórn felur aðalfundi þær ákvarðanir og birtir í tilkynningu og dagskrá fundar.
-
Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga (sem tengjast ekki fjölskyldu- eða nánum vinaböndum formanni eða gjaldkera).
-
Lagabreytingatillögur. Tillögur til lagabreytinga á aðalfundi (leið b) geta komið frá stjórn eða fullgildum félagsmönnum. Lagabreytingar um valdsvið stjórnar og tímalengd stjórnarsetu má eingöngu afgreiða í gegnum löglega boðaðan aðalfund. Allar lagabreytingatillögur þurfa að berast stjórn með minnst 21 daga fyrirvara fyrir aðalfund og eiga að koma fram í birtingu á vef félagsins minnst 14 dögum fyrir aðalfund. Til að lagabreytingatillögur hljóti samþykki á aðalfundi þarf aukinn meirihluta (⅔) þeirra sem greiða atkvæði. Sjá nánar um atkvæðagreiðslur í gr. 2.51. Samþykktar lagabreytingar á aðalfundi taka gildi eftir lok fundarins.
-
Breytingar á hugmyndagrunni félagsins, siðareglum eða öðrum skjalfestum birtum stefnum/viðmiðum utan laga. Um þessar breytingartillögur gildir að stjórn félagsins tekur þær til umræðu og getur samþykkt þær, tilkynnt og birt, telji formaður og minnst 3 af 4 stjórnarliðum breytingarnar til bóta og ekki vera í mótsögn við siðferðilega eða þekkingarlega raunhyggju húmanismans. Samþykktir skulu jafnan vera um atriði sem stjórn telur líklegt að félagsmenn/húmanistar séu almennt sammála um og endurspegli grunnviðmið. Þær geta verið viðbót, úrfellingar atriða, breytingar á skipulagi eða nánari útlistun á gildandi hugmyndagrunni, siðareglum, stefnum eða viðmiðum. Eftir atvikum getur stjórn ákveðið að bera breytingarnar undir næsta aðalfund (óháð birtingu) til umræðu og atkvæðagreiðslu, til dæmis eftir rökstudda beiðni félagsmanns.
Aðalfundi lýkur formlega eftir ofangreinda dagskrá en önnur mál geta hlotið óformlega umfjöllun í kjölfar hennar, eftir því sem dagskrártími leyfir og fundarstjóri í umboði stjórnar/formanns telur viðeigandi.
2.42. Framboðsfrestur og kynning. Fari fram kjör formanns/varaformanns það árið skal tilkynna um framboðið að lágmarki 14 dögum fyrir aðalfundinn. Vísi stjórn vali/kjöri annarra stjórnarliða til aðalfundar skal tilkynna framboð að lágmarki 14 dögum fyrir aðalfundinn. Það skal birta kynningu á framboðunum á vefsíðu félagsins í síðasta lagi 10 dögum fyrir aðalfundinn. Form og efnisþættir kynningarefnis eru ákveðnir af stjórn og gerðir frambjóðendum ljósir. Náist ekki nægur fjöldi frambjóðenda (skv. skilyrðum tilgr. ofar) getur þurft að fækka tímabundið í stjórn (í 3+1) og varaformaður að taka við tímabundið ef formaður hættir.
2.5 Viðmið um almennar atkvæðagreiðslur eða kosningar um mál eða hlutverk.
2.51. Um lögboðnar kosningar mála á aðalfundi (um stöðu formanns/varaformanns og þeirra mála sem settar eru á dagskrá til atkvæðagreiðslu þar, þ.m.t. lagabreytingatillögur) gildir að öllum félagsmönnum er heimild þátttaka gegnum rafræna atkvæðagreiðslu, með rafræn skilríki, sé sú útfærsla tæknilega möguleg. Mikil þátttaka eykur líkur á óhlutdrægri niðurstöðu.
2.52. Atkvæðisbærir félagsmenn skulu hafa heildarhagsmuni og bestu útkomu fyrir hlutverk félagsins í huga við kosningar. Eftirfarandi eykur líkur á málefnalegri vel upplýstri ákvörðun: (i) Kynna sér vel öll framboðin á sjálfstæðan máta og gefa ekki neinum vilyrði um kosningu, (ii) spyrja frambjóðendur um mikilvæg mál, (iii) Varast myndun andstæðra fylkinga.
2.53. Kjörgengir félagsmenn í framboði skulu (i) standa sjálfstætt að framboði, (ii) varast að mynda bjaga í kosningum með myndun vina- eða þrýstihópa, sem vita lítið um aðra frambjóðendur eða málefnin og (iii) varast að hafa áhrif á kosningafrelsi félagsmanna með því að taka af þeim vilyrði eða loforð um atkvæði sitt.
Yfirlitstafla um lagabreytingarferli skv. félagslögum (gr. 2.31 c og gr. 2.41)
3. Húmanísk stefnumið.
Allt starf félagsins og framkoma fulltrúa þess skal endurspegla þá siðferðilegu og þekkingarlegu raunhyggju sem er í grunni hins sammannlega húmanisma í Hugmyndagrunni Farsældar og öðrum stefnumótandi samþykktum félagsins. Allir fulltrúar félagsins eiga að starfa eftir viðmiðum fagmennsku um gott siðferði, þekkingu og færni í þeim málum sem um ræðir og siðferðilega afstöðu (dygðir) og samskiptafærni í öllum samskiptum. Auk hugmyndagrunnsins setja félagsmenn sér til viðmiðunar siðareglur og mögulega sértækari hegðunarreglur, eftir atvikum.
4. Fjármál.
4.1 Stjórn fjármála (firmaritun) fer eftir samkomulagi eða meirihlutavilja stjórnar.
4.2. Stjórn er ekki heimilt að koma félaginu í neikvæða lausafjárstöðu (skulda umfram laust eða auðlosanlegt fé) nema í tilviki tímabundinnar neyðar.
4.3. Reikningsár er almanaksárið. Gjaldkeri skal afhenda skoðunarmönnum ársreikning 3 vikum fyrir áætlaðan aðalfund. Skoðunarmenn ársreikninga skulu ljúka yfirferð sinni á ársreikningi gjaldkera og tilkynna gjaldkera og stjórn um samþykkt eða athugasemdir minnst 14 dögum fyrir aðalfund. Birta skal áritaðan ársreikning helst 7 dögum en minnst 3 dögum fyrir dagsetningu aðalfundar.
4.4. Gjaldkeri skal leggja fram ársreikning til kynningar, umræðna og samþykktar á aðalfundi.
5. Félagsslit og aukaaðalfundur
5.1. Ákveði bæði ⅘ hlutar stjórnar og minnst ⅔ hlutar allra félagsmanna, í atkvæðagreiðslu í framhaldinu, að leggja niður félagið, skal halda löglega boðaðan aukaaðalfund (eða aðalfund) innan 1 - 3 mánaða. Séu minnst ⅘ félagsmanna á fundinum samþykkir niðurlagningunni skal það gert, ellegar velja nýja starfhæfa stjórn til að halda starfinu áfram.
5.2. Takist ekki að mynda starfhæfa stjórn (að lágmarki þriggja félagsmanna) til að starfa að markmiðum félagsins fyrir lok marsmánaðar starfsárs og að loknum aðalfundi, skal boða til aukaaðalfundar innan 3 mánaða frá lokum hins fyrri og leita og lýsa eftir framboðum. Takist heldur ekki að mynda lágmarksfjölda (3+1) til stjórnar á þeim fundi skulu fyrrum formaður og gjaldkeri, skjalfesta og tilkynna niðurlagningu félagsins.
5.3. Komi til slita félagsins, skv. fyrrgreindu, skal ráðstafa öllu eftirstandandi lausafé (eftir greiðslu útistandandi skulda) til Heimspekideildar Háskóla Íslands eða sambærilegs húmanísks lífsskoðunarfélags hérlendis (og til vara, erlendis).
5.4. Stjórn félagsins getur ákveðið að setja starfsemi félagsins í bið skapist óvenjulegar aðstæður í samfélaginu (t. d. vegna faraldurs hættulegrar sýkingar) og hafið hana svo aftur þegar ástandinu léttir. Ákvörðun um slíkt skal birta á vefsíðu félagsins (eða til vara með öðrum tiltækum leiðum opinnar tilkynningar) auk viðeigandi útskýringa.
Samþykkt af stofnfélögum á stofnfundi Farsældar þann 23. mars 2025 í Safnahúsi, Reykjavík.
