top of page

Farsældarkornin

Farsældarkornin eru stuttar hugleiðingar. Þær eru um lífið og tilveruna og aðstæður sem við sem siðferðilega ábyrgar manneskjur stöndum frammi fyrir, stundum óvænt, stundum nauðug frekar en viljug, stundum í flóknu samfélagslegu samhengi, stundum í einkalífinu, og svo framvegis. Þær enda jafnan á spurningum til hugleiðingar. Sumar eru ljúfar og auðvelt að taka undir, aðrar skora á fólk, eru glettnar eða lýsa erfiðum klípum. Njótum!   

Farsældarkorn

5

Kjarnorkubyrgið

Í bók sinni Practical Ethics (1993) setur siðfræðingurinn Peter Singer fram áhugaverða hugsanatilraun. 


Segjum sem svo, segir Singer, að kjarnorkustríð sé skollið á með skelfilegum afleiðingum. Það eru þó ekki allir illa settir. Hópur fólks hafði undirbúið sig og gert kjarnorkubyrgi í formi þorps sem var neðanjarðar. Þorp þetta var lúxusþorp og gat hýst 10.000 manns í 20 ár en við aðstæður þær sem höfðu skapast var aðeins nauðsynlegt að vera í birginu í 8 ár. Íbúar birgisins urðu varir við neyðina fyrir utan. Fólk sem hvorki hafði byggt né fjármagnað birgið knúði nú dyra í mikilli örvæntingu og vildi komast inn. Mögulegt var að bjóða fjölda fólks að dvelja í birginu, en ef fjöldi þeirra sem myndi bætast við þau sem fyrir voru yrði allt að 10.000, þyrfti að skera niður ýmsan munað eins og íþróttavelli og sundlaugar. 

Skiptar skoðanir voru á meðal íbúa birgisins. 


Í fyrsta lagi voru þau sem töldu að hleypa ætti inn 10.000 manns og skera niður lífskjör þeirra sem fyrir voru. 


Í öðru lagi voru þau sem töldu að ekki kæmi til greina að breyta neinu að ráði, en mögulegt væri að bjóða 500 manns vist í birginu. 


Í þriðja lagi voru þau sem ekki vildu bjóða neinum. Rök þeirra síðastnefndu voru þau að fólk sem er fyrirhyggjusamt og hafði skapað sér öruggar aðstæður ætti ekki að þurfa að fórna neinu fyrir fólk sem ekki sýndi fyrirhyggjusemi. Auk þess kom fram í þessum hópi að með auknum fjölda myndi aukast líkur á ágreiningi og átökum þar sem fólk þyrfti að deila lífsgæðum.


Singer spyr síðan lesendur sína hvern kostinn af þessum þremur myndu þeir velja og það er einmitt önnur af tveimur spurningum beint er til ykkar hér: 


1) Hvaða kost myndir þú velja, fyrsta, annan eða þann þriðja? 


2) Er mögulegt að yfirfæra dæmi Singers á einhver samfélagsmál í nútímanum?

27. nov. 2025

Jóhann Björnsson

Farsældarkorn

4

Krafturinn í þakklæti

Þakklæti er orð sem kann að hljóma einfalt, en hefur djúpa merkingu. Það snýst ekki aðeins um að segja „takk“, heldur um að staldra við og átta sig á því sem við eigum, jafnvel þegar okkur finnst eitthvað vanta.


Í amstri dagsins gleymum við oft að meta það sem virkar, það sem gengur vel og fólkið sem stendur okkur næst. Þótt þakklæti breyti ekki aðstæðum okkar getur það breytt sjónarhorninu og gert daginn bjartari.


Það er auðvelt að festast í hugsunum um það sem betur mætti fara en stundum nægir að minnast einnar lítillar ástæðu til að vera þakklát/ur til að hugarfarið breytist.


Þakklæti er eitthvað sem við þurfum að rækta meðvitað og reglulega. Að sjá hið góða í hinu hversdagslega er ef til vill ein öflugasta leiðin til farsældar.

21. nov. 2025

Ingrid Kuhlman

Farsældarkorn

3

Hver er lífsskoðun þín?

Árið 1969 flutti Brynjólfur Bjarnason (1898-1989) erindi í útvarpinu um lífsskoðunarhugtakið og um eigin lífsskoðun. Erindi þetta var síðan gefið út í bókinni Lögmál og frelsi ári síðar. 


Í erindi sínu tekur Brynjólfur sérstaklega fram að skilningur hans á hugtakinu lifsskoðun sé fyrst og fremst hans eigin og ekki ólíklegt að aðrir leggi annan skilning í hugtakið. 


Kjarninn í skilningi Brynjólfs er sá að lífsskoðun geti vísað til allskyns hugmyndakerfa sem hafa með siðferðishugmyndir, stjórnmála- og félagsmálaskoðanir, trúarskoðanir eða blöndu úr þessu öllu að gera. Allir eru „fæddir“ inn í einhverja lífsskoðun að mati Brynjólfs, sem þýðir að hún er tekin í arf frá fyrri kynslóðum sem hafa haft mótandi áhrif á það hvernig lífsskoðun fólk tileinkar sér. Þar spila inni í meðal annars sögulegar-, efnahagslegar- og menningarlegar aðstæður. Lífsskoðun fólks samanstendur jafnframt af öllum hugmyndum sem fólk hefur um tilgang lífsins og stöðu manneskjunnar tilverunni. 


Enginn kemst af án lífsskoðunar segir Brynjólfur sem ekki er endilega alltaf að fullu meðvituð:

„Fæstir gera sér grein fyrir lífsskoðun sinni en þeir lifa eftir ákveðinni lífsskoðun eigi að síður. Hún býr að baki allra mannlegra samskipta og allra þeirra siðalögmála, sem mennirnir hafa sett sér.“ (Lögmál og frelsi bls. 149)


Það er því ráð að spyrja: Hver er lífsskoðun þín og hvað hefur mótað hana?

15. nov. 2025

Jóhann Björnsson

Farsældarkorn

2

Hamingjan er hér!

Stundum virðist hamingjan bíða handan við hornið – þegar við klárum verkefni, flytjum, náum markmiði eða eignumst eitthvað nýtt. En þegar það loks gerist, virðist hún á einhvern hátt fjarlægjast aftur.


Kannski er hamingjan ekki áfangastaður heldur hluti af ferðinni sjálfri. Hún birtist í litlu augnablikunum sem við gefum okkur tíma til að taka eftir – brosi, hlýjum orðum, fersku lofti, bolla af kakói eða stuttu spjalli við manneskju sem lætur okkur líða vel.


Við eigum það til að leita hamingjunnar í stórum atburðum, en oftar en ekki býr hún í hversdagslegum smáatriðum sem við tökum sem sjálfsögðum. Það er eins og hún vilji ekki láta ná sér, nema við hægjum á og gefum henni rými.


Kannski er spurningin ekki „hvernig finn ég hamingjuna?“ heldur frekar „hvernig get ég tekið oftar eftir henni?“

10. nov. 2025

Ingrid Kuhlman

Farsældarkorn

1

Gæti verið pirrandi við matarborðið

Um daginn birtist frétt með fyrirsögnin „gæti verið pirrandi umræðuefni við matrarborðið“ í einum fjölmiðlinum. Fyrirsögnin, sem miðað við innihald fréttarinnar var augljóslega smellabeita, vakti upp smá pælingar um samfélagsbreytingar almennt.

Það hefur í gegnum tíðina einmitt allt á milli himins og jarðar verið rætt við matarborðið hjá fólki - líka það sem er pirrandi. Kannski er það einn vandinn í samtímanum að fjölskyldur hittast minna við matarborðið og að við tölum minna saman. Þetta er sjálfsagt mismunandi og það sem tíðkast á einu heimili gerir það ekki endilega á öðrum.

En svona almennt séð bendir ýmislegt til að samfélagsmynstrið hafi breyst hvað þetta varðar. Við verjum minni tíma saman í augliti til auglitis og þegar við erum saman erum við oft varla til staðar. Snjallsíminn er í eða við höndina og athyglin er annarsstaðar. Sjónvarpið er mögulega í gangi yfir kvöldmatnum. Foreldrarnir eru oft lítið skárri en börnin og unlingarnir.

Eigum við ekki að borða saman og tala saman - vera til staðar hvert fyrir annað af fullri athygli? Er það ekki farsælla þegar uppi er staðið?

7. nov. 2025

Sævar Finnbogason

  • Facebook
  • Instagram

Farsæld - húmanískt lífskoðunarfélag

Hafnarstræti 5, 101 Reykjavík

kt. 580625-0960

bottom of page